Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/109

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Ólafur konungur Tryggvason stóð í lyftingu á Orminum og skaut oftast um daginn, stundum bogaskoti en stundum gaflökum og jafnan tveim senn.

Hann sá fram á skipið og sá sína menn reiða sverðin og höggva títt og sá að illa bitu, mælti þá hátt: „Hvort reiðið þér svo slælega sverðin er eg sé að ekki bíta yður?“

Maður svarar: „Sverð vor eru slæ og brotin mjög.“

Þá gekk konungur ofan í fyrirrúmið og lauk upp hásætiskistuna, tók þar úr mörg sverð hvöss og fékk mönnum. En er hann tók niður hinni hægri hendi þá sáu menn að blóð rann ofan undan brynstúkunni. Engi veit hvar hann var sár.