Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/112

Úr Wikiheimild

Svo var fyrr ritið að Sigvaldi jarl kom til föruneytis við Ólaf konung í Vindlandi og hafði jarl tíu skip en það hið ellefta er á voru menn Ástríðar konungsdóttur, konu Sigvalda jarls.

En þá er Ólafur konungur hafði fyrir borð hlaupið þá æpti herinn allur siguróp og þá lustu þeir árum í sjá, jarl og hans menn, og reru til bardaga.

Þess getur Halldór ókristni:

Drógust vítt að vígi
Vinda skeiðr, og gindu
Þriðja hauðrs á þjóðir
þunn gölkn og járnmunnum.
Gnýr varð á sjá sverða.
Sleit örn gera beitu.
Dýr vó drengja stjóri.
Drótt kom mörg á flótta.

En sú Vindasnekkjan er menn Ástríðar voru á reri brott og aftur undir Vindland og var það þegar ræða margra manna að Ólafur konungur mundi steypt hafa af sér brynjunni í kafi og kafað út undan langskipunum, lagst síðan til Vindasnekkjunnar og hefðu menn Ástríðar flutt hann til lands. Og eru þar margar frásagnir um ferðir Ólafs konungs gervar síðan af sumum mönnum.

En á þessa leið segir Hallfreður:

Veit eg ei hitt, hvort Heita
hungrdeyfi skal eg leyfa
dynsæðinga dauðan
dýrbliks eða þó kvikvan,
alls sannlega segja,
sár mun gramr að hváru,
hætt er til hans að frétta,
hvorttveggja mér seggir.

En hvernug sem það hefir verið þá kom Ólafur konungur Tryggvason aldrei síðan til ríkis í Noregi.

En þó segir Hallfreður vandræðaskáld á þessa leið:

Samr var ár, um ævi,
oddbrags, hinn er það sagði,
að lofða gramr lifði,
læstyggs sonar Tryggva.
Vera kveðr öld úr éli
Ólaf kominn stála,
menn geta máli sönnu,
mjög er verr en svo, ferri.

Og enn þetta:

Mundut þess, er þegnar
þróttharðan gram sóttu,
fer eg með lýða líði
landherðar, sköp verða,
að mundjökuls mundi
margdýr koma stýrir,
geta þykjast þess gotnar
glíklegs, úr styr slíkum.
Enn segir auðar kenni
austr í málma gnaustan
seggr frá sárum tyggja
sumr eða brott um komnum.
Nú er sannfregið sunnan
siklings úr styr miklum,
kann eigi mart við manna,
morð, veifanar orði.