Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/2

Úr Wikiheimild

Haraldur gráfeldur og Guðröður bróðir hans fóru eftir dráp Tryggva konungs til búa þeirra er hann hafði átt en þá var Ástríður í brottu og spurðu þeir ekki til hennar. Sá pati kom fyrir þá að hún mundi vera með barni Tryggva konungs. Fóru þeir um haustið norður í land svo sem fyrr er ritið.

En er þeir fundu Gunnhildi móður sína sögðu þeir alla atburði um þessi tíðindi er þá höfðu gerst í för þeirra. Hún spurði að vendilega þar sem var Ástríður. Þeir segja slíkan kvitt þar af sem þeir höfðu heyrt. En fyrir þá sök að það haust hið sama áttu Gunnhildarsynir deilu við Hákon jarl og svo um veturinn eftir, sem fyrr er ritið, varð þá engi eftirleitan höfð um Ástríði og son hennar á þeim vetri.