Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/48

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Hákon jarl var á veislu í Gaulardal að Meðalhúsum en skip hans lágu út við Viggju. Ormur lyrgja er maður nefndur, ríkur bóndi. Hann bjó á Býnesi. Hann átti konu þá er Guðrún er nefnd, dóttir Bergþórs af Lundum. Hún var kölluð Lundasól. Hún var kvinna fríðust.

Jarl sendi þræla sína til Orms þeirra erinda að hafa Guðrúnu konu Orms til jarls. Þrælar báru upp erindi sín. Ormur bað þá fyrst fara til náttverðar. En áður þrælar höfðu matast þá voru komnir til Orms margir menn úr byggðinni er hann hafði orð sent. Lét Ormur þá engan kost að Guðrún færi með þrælunum. Guðrún mælti, bað þræla svo segja jarli að hún mundi eigi til hans koma nema hann sendi eftir henni Þóru af Rimul. Hún var húsfreyja rík og ein af unnustum jarls. Þrælarnir segja að þeir skulu þar svo koma öðru sinni að bóndi og húsfreyja munu þessa iðrast skammbragðs og heitast þrælarnir mjög og fara brott síðan.

En Ormur lét fara herör fjögurra vegna um byggðina og lét það boði fylgja að allir skyldu með vopnum fara að Hákoni jarli og drepa hann, og sendi til Halldórs á Skerðingssteðju en Halldór lét þegar fara herör. Litlu áður hafði jarl tekið konu manns þess er Brynjólfur hét og var það verk allmjög óþokkað og var þá við sjálft að her mundi upp hlaupa. Eftir örboði hljóp upp múgi manns og sótti til Meðalhúsa.

En jarl fékk njósn og fór af bænum með lið sitt og í dal djúpan, þann er nú er kallaður Jarlsdalur síðan, og leyndust þeir þar. Eftir um daginn hafði jarl njósn allt af bóndaherinum. Bændur tóku vegu alla og ætluðu helst að jarl mundi hafa farið til skipa sinna en fyrir skipunum réð þá Erlendur sonur hans, hinn mannvænsti maður.

En er náttaði dreifði jarl liðinu og bað fara markleiði út til Orkadals: „Engi maður mun yður mein gera ef eg em hvergi í nánd. Gerið orð Erlendi að hann fari út eftir firðinum og hittumst við á Mæri. Eg mun vel fá leynt mér fyrir bóndum.“

Fór jarl þá og þræll hans með honum er Karkur er nefndur. Ís var á Gaul og hratt jarl þar í hesti sínum og þar lét hann eftir möttul sinn en þeir fóru í helli þann er síðan er kallaður Jarlshellir. Þá sofnuðu þeir. En er Karkur vaknaði þá segir hann draum sinn að maður svartur og illilegur fór hjá hellinum og hræddist hann það að hann mundi inn ganga en sá maður sagði honum að Ulli var dauður. Jarl segir að Erlendur mundi drepinn. Enn sofnar Þormóður karkur öðru sinni og lætur illa í svefni. En er hann vaknar segir hann draum sinn að hann sá þá hinn sama mann fara ofan aftur og bað þá segja jarli að þá voru lokin sund öll. Karkur segir jarli drauminn. Hann grunaði að slíkt mundi vera fyrir skammlífi hans.

Síðan stóð hann upp og gengu þeir á bæinn Rimul. Þá sendi jarl Kark á fund Þóru, bað hana koma leynilega til sín. Hún gerði svo og fagnar vel jarli. Jarl bað hana fela sig um nokkurra nátta sakir þar til er bændur ryfu safnaðinn.

„Hér mun þín leitað,“ segir hún, „um bæ minn, bæði úti og inni, því að það vita margir að eg mun gjarna hjálpa þér, allt það er eg má. Einn staður er sá á mínum bæ er eg mundi eigi kunna að leita slíks manns. Það er svínabæli nokkuð.“

Þau komu þannug til.

Mælti jarl: „Hér skulum vér um búast. Lífsins skal nú fyrst gæta.“

Þá gróf þrællinn þar gröf mikla og bar í brott moldina. Síðan lagði hann þar viðu yfir. Þóra segir jarli þau tíðindi að Ólafur Tryggvason var kominn utan í fjörðinn og hafði hann drepið Erlend son hans. Síðan gekk jarl í gröfina og báðir þeir Karkur en Þóra gerði yfir með viðum og sópaði yfir moldu og myki og rak þar yfir svínin. Svínabæli það var undir steini einum miklum.