Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/62

Úr Wikiheimild

Ólafur konungur fór þá til Túnsbergs og átti þar þá enn þing og talaði á þinginu að þeir menn allir er kunnir og sannir yrðu að því að færu með galdra og gerningar eða seiðmenn, þá skyldu allir fara af landi á brott. Síðan lét konungur rannsaka eftir þeim mönnum um þær byggðir er þar voru í námunda og boða þeim öllum til sín. En er þeir komu þar þá var einn maður af þeim er nefndur er Eyvindur kelda. Hann var sonarsonur Rögnvalds réttilbeina sonar Haralds hárfagra. Eyvindur var seiðmaður og allmjög fjölkunnigur.

Ólafur konungur lét skipa þessum mönnum öllum í eina stofu og lét þar vel um búast, lét gera þeim þar veislu og fá þeim sterkan drykk. Og þá er þeir voru drukknir lét Ólafur leggja eld í stofuna og brann stofa sú og allt það fólk er þar var inni nema Eyvindur kelda komst út um ljórann og svo í brott. En er hann var langt í brott kominn fann hann menn þá á leið sinni er fara ætluðu til konungs og bað þá svo segja konungi að Eyvindur kelda var brott kominn úr eldinum og hann mun aldrei síðan koma á vald Ólafs konungs, en hann mun allt fara á sömu leið sem fyrr gerði hann um alla kunnustu sína. En er þessir menn komu á fund Ólafs konungs þá segja þeir slíkt frá Eyvindi sem hann hafði þeim boðið. Konungur lætur illa yfir er Eyvindur var eigi dauður.