Heimskringla/Ólafs saga helga/185

Úr Wikiheimild

Björn stallari sat heima að búi sínu síðan er hann hafði skilist við Ólaf konung. Björn var frægur og spurðist það brátt víða að hann hafði sest um kyrrt. Spurði það Hákon jarl og aðrir landráðamenn. Síðan gerðu þeir menn og orðsendingar til Bjarnar.

En er sendimenn komu fram ferð þeirri þá tók Björn vel við þeim. Síðan kallaði Björn til tals við sig sendimenn og spurði þá eftir erindum sínum.

En sá er fyrir þeim var mælti, bar kveðju Knúts konungs og Hákonar jarls Birni, og enn fleiri höfðingja, „og það með,“ segir hann, „að Knútur konungur hefir spurn mikla af þér og svo um það að þú hefir lengi fylgt Ólafi digra en verið óvinur mikill Knúts konungs og þykir honum það illa því að hann vill vera vinur þinn sem allra annarra dugandi manna þegar er þú vilt af hverfa að vera hans óvinur. Og er þér nú sá einn til að snúast þangað til trausts og vináttu sem gnógst er að leita og nú láta allir menn sér sóma í norðurhálfu heimsins. Megið þér það líta er fylgt hafið Ólafi hvernug hann hefir nú við yður skilið. Þér eruð allir traustlausir fyrir Knúti konungi og hans mönnum en herjuðuð land hans hið fyrra sumar og drápuð vini hans. Þá er þetta með þökkum að taka er konungur býður sína vináttu og væri hitt maklegra að þú bæðir eða byðir fé til.“

En er hann hafði lokið ræðu sinni þá svarar Björn og segir svo: „Eg vil nú sitja um kyrrt heima að búi mínu og þjóna ekki höfðingjum.“

Sendimaður svarar: „Slíkt eru konungsmenn sem þú ert. Kann eg þér það að segja að þú átt tvo kosti fyrir höndum. Sá annar að fara útlagur af eignum þínum svo sem nú fer Ólafur félagsmaður yðar. Hinn er annar kostur, er sýnilegri má þykja, að taka við vináttu Knúts konungs og Hákonar jarls og gerast þeirra maður og selja til þess trú þína og taka hér mála þinn,“ steypti fram ensku silfri úr sjóð miklum.

Björn var maður fégjarn og var hann sjúkur mjög og þagnaði er hann sá silfrið, hugði þá að fyrir sér hvað af skyldi ráða, þótti mikið að láta eigur sínar en þótti ósýn uppreist Ólafs konungs, að verða mundi í Noregi.

En er sendimaður fann að Birni gekkst hugur við féið þá kastaði hann fram gullhringum tveimur digrum og mælti: „Tak þú nú féið Björn og sver eiðinn. Eg heiti þér því að lítils er þetta fé vert hjá hinu er þú munt þiggja ef þú sækir heim Knút konung.“

En af mikilleik fjárins og heitum fögrum og stórum fégjöfum þá varð hann snúinn til fégirni, tók upp féið og gekk síðan til handgöngu og eiða, trúnaðar við Knút konung og Hákon jarl. Fóru þá sendimenn í brott.