Heimskringla/Ólafs saga helga/58

Úr Wikiheimild

Það var siður konungs að rísa upp snemma um morgna og klæðast og taka handlaugar, ganga síðan til kirkju og hlýða óttusöng og morguntíðum og ganga síðan á stefnur og sætta menn eða tala það annað er honum þótti skylt. Hann stefndi til sín ríkum og óríkum og öllum þeim er vitrastir voru. Hann lét oft telja fyrir sér lög þau er Hákon Aðalsteinsfóstri hafði sett í Þrándheimi. Hann skipaði lögunum með ráði hinna vitrustu manna, tók af eða lagði til þar er honum sýndist það. En kristinn rétt setti hann með umráði Grímkels biskups og annarra kennimanna og lagði á það allan hug að taka af heiðni og fornar venjur, þær er honum þótti kristnispell í. Svo kom að bændur játtu þessum lögum er konungur setti.

Svo segir Sighvatur:

Loftbyggir, máttu leggja
landsrétt þann er skal standast,
unnar, allra manna,
eykja, liðs á miðli.

Ólafur konungur var maður siðlátur, stilltur vel, fámálugur, ör og fégjarn.

Þá var þar með konungi Sighvatur skáld sem fyrr var sagt og fleiri íslenskir menn. Ólafur konungur spurði eftir vendilega hvernug kristinn dómur væri haldinn á Íslandi. Þá þótti honum mikilla muna ávant að vel væri því að þeir sögðu frá kristnihaldinu að það var lofað í lögum að eta hross og bera út börn sem heiðnir menn og enn fleiri hlutir þeir er kristnispell var í. Þeir sögðu og konungi frá mörgu stórmenni því er þá var á Íslandi. Skafti Þóroddsson hafði þá lögsögu á landinu. Víða af löndum spurði hann að siðum manna, þá menn er glöggst vissu, og leiddi mest að spurningum um kristinn dóm, hvernug haldinn væri bæði í Orkneyjum og á Hjaltlandi og úr Færeyjum og spurðist honum svo til sem víða mundi mikið á skorta að vel væri. Slíkar ræður hafði hann oft í munni eða um lög að tala eða um landsrétt.