Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/4

Úr Wikiheimild

Eiríkur konungur hafði fjölmenni mikið um sig, hélt þar fjölda Norðmanna er austan hafði farið með honum og enn komu margir vinir hans síðan af Noregi. Hann hafði land lítið. Þá fór hann jafnan í hernað á sumrum, herjaði á Skotland og Suðureyjar, Írland og Bretland og aflaði sér svo fjár.

Aðalsteinn konungur varð sóttdauður. Hann hafði verið konungur fjórtán vetur og átta vikur og þrjá daga. Síðan var konungur í Englandi Játmundur bróðir hans. Var honum ekki um Norðmenn. Var Eiríkur konungur eigi í kærleikum við hann og fóru þá þau orð um af Játmundi konungi að hann mundi annan höfðingja setja yfir Norðimbraland.

En er það spurði Eiríkur konungur þá fór hann í vesturvíking og hafði úr Orkneyjum með sér Arnkel og Erlend sonu Torf-Einars. Síðan fór hann í Suðureyjar og voru þar margir víkingar og herkonungar og réðust til liðs með Eiríki. Hélt hann þá öllu liðinu fyrst til Írlands og hafði þaðan lið slíkt er hann fékk. Síðan fór hann til Bretlands og herjaði þar. Eftir það sigldi hann suður undir England og herjaði þar sem í öðrum stöðum en allt lið flýði þar sem hann fór. Og með því að Eiríkur var hreystimaður mikill og hafði her mikinn þá treystist hann svo vel liði sínu að hann gekk langt á land upp og herjaði og leitaði eftir mönnum.

Ólafur hét konungur sá er Játmundur konungur hafði þar sett til landvarnar. Hann dró saman her óvígjan og fór á hendur Eiríki konungi og varð þar mikil orusta. Féllu mjög enskir menn og þar sem einn féll komu þrír af landi ofan í staðinn. Og hinn efra hlut dagsins snýr mannfallinu á hendur Norðmönnum og féll þar mikið fólk og að lyktum þess dags féll Eiríkur konungur og fimm konungar með honum. Þessir eru nefndir: Guttormur og synir hans tveir, Ívar og Hárekur. Þar féll og Sigurður og Rögnvaldur. Þar féll og Arnkell og Erlendur synir Torf-Einars. Þar varð allmikið mannfall af Norðmönnum en þeir er undan komust fóru til Norðimbralands og sögðu Gunnhildi og sonum hennar þessi tíðindi.