Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/2

Úr Wikiheimild

Eftir þessar orustur fer Haraldur konungur og Guttormur hertogi og allt lið það er þeir fá og venda til Upplanda og fara mjög markleið. Þeir spyrja hvar Upplendingakonungar hafa lagt stefnu sína og koma þar um miðnætti. Og verða eigi varðmenn fyrr varir við en lið var komið fyrir þá stofu er inni var Högni Káruson og svo þá er Guðbrandur svaf í, og lögðu eld í hvoratveggju. En Eysteinssynir komust út með sína menn og börðust um hríð og féllu þar báðir, Högni og Fróði.

Eftir fall þessa fjögurra höfðingja eignaðist Haraldur konungur með kraft og framkvæmd Guttorms frænda síns Hringaríki og Heiðmörk, Guðbrandsdali og Haðaland, Þótn og Raumaríki, Vingulmörk, allan hinn nyrðra hlut.

Eftir það höfðu þeir Haraldur konungur og Guttormur hertogi ófrið og orustur við Gandálf konung og lauk með því að Gandálfur konungur féll í hinni síðustu orustu en Haraldur konungur eignaðist ríki allt suður til Raumelfar.