Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/27

Úr Wikiheimild

Eftir það er Haraldur konungur hafði reynt svik Finnunnar varð hann svo reiður að hann rak frá sér sonu sína og Finnunnar og vildi eigi sjá þá. En Guðröður ljómi fór á fund Þjóðólfs hins hvinverska fósturföður síns og bað hann fara með sér til konungs því að Þjóðólfur var ástvinur konungs. En konungur var þá á Upplöndum.

Þeir fara síðan. En er þeir komu til konungs síð aftans og settust niður utarlega og duldust. Konungur gekk á gólfinu og sá á bekkina en hann hafði veislu nokkura og var mjöður blandinn.

Þá kvað hann þetta fyrir munni sér:

Mjög eru mínir rekkar
til mjöðgjarnir bornir
og hér komnir hárir.
Hví eruð þér ævar margir?

Þá svaraði Þjóðólfur:

Höfðum vér í höfði
högg að eggja leiki
með vellbrota vitrum.
Voruma þá til margir.

Þjóðólfur tók ofan höttinn og kenndi konungur hann þá og fagnaði honum vel.

Þá bað Þjóðólfur konung að hann skyldi eigi fyrirlíta sonu sína „því að fúsir væru þeir að eiga betra móðerni ef þú hefðir þeim það fengið.“

Konungur játaði honum því og bað hann hafa Guðröð heim með sér, svo sem hann hafði fyrr verið, en Sigurð og Hálfdan bað hann fara á Hringaríki en Rögnvald á Haðaland. Þeir gera svo sem konungur bauð. Gerðust þeir allir vasklegir menn og vel búnir að íþróttum.

Haraldur konungur sat þá um kyrrt innanlands og var friður góður og árferð.