Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/36

Úr Wikiheimild

Eiríkur blóðöx ætlaði að vera yfirkonungur allra bræðra sinna og svo vildi og Haraldur konungur vera láta. Voru þeir feðgar löngum ásamt.

Rögnvaldur réttilbeini átti Haðaland. Hann nam fjölkynngi og gerðist seiðmaður. Haraldi konungi þóttu illir seiðmenn. Á Hörðalandi var sá seiðmaður er hét Vitgeir. Konungur sendi honum orð og bað hann hætta seið.

Hann svaraði og kvað:

Það er vá lítil,
að vér síðum,
karla börn
og kerlinga,
er Rögnvaldr síðr
réttilbeini,
hróðmögr Haralds
á Haðalandi.

En er Haraldur konungur heyrði þetta sagt þá með hans ráði fór Eiríkur blóðöx til Upplanda og kom á Haðaland. Hann brenndi inni Rögnvald bróður sinn með átta tigu seiðmanna og var það verk lofað mjög.

Guðröður ljómi var um veturinn með Þjóðólfi í Hvini fósturföður sínum á kynnisókn og hafði skútu alskipaða og vildi hann fara norður á Rogaland. Þá lögðust á stormar miklir en Guðröði var títt um ferð sína og lét hann illa um dvölina.

Þá kvað Þjóðólfur:

Fariða þér áðr fleyja
flatvöllr héðan batnar,
verpr Geitis vegr grjóti,
Guðröðr, um sjá stóran.
Vindbýsna skaltu, vísi
víðfrægr, héðan bíða.
Verið með oss, uns verði
veðr, nú er brim fyr Jaðri.

Guðröður fór sem áður hvað sem Þjóðólfur mælti. En er þeir komu fyrir Jaðar þá kafði skipið undir þeim og létust þar allir.