Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/4

Úr Wikiheimild

Sendimenn fara nú aftur til Haralds konungs og segja honum þessi orð meyjarinnar og telja að hún er furðu djörf og óvitur og segja það maklegt að konungur sendi lið mikið eftir henni við ósæmd.

Þá svarar Haraldur konungur að eigi hefði þessi mær illa mælt eða gert svo að hefnda væri fyrir vert, bað hana hafa mikla þökk fyrir orð sín, „hún hefir minnt mig þeirra hluta,“ segir hann, „er mér þykir nú undarlegt er eg hefi eigi fyrr hugleitt.“

Og enn mælti hann: „Þess strengi eg heit og því skýt eg til guðs þess er mig skóp og öllu ræður að aldrei skal skera hár mitt né kemba fyrr en eg hefi eignast allan Noreg með sköttum og skyldum og forráði en deyja að öðrum kosti.“

Þessi orð þakkaði honum mjög Guttormur hertogi og lét það vera konunglegt verk að efna orð sín.