Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/45

Úr Wikiheimild

Eiríkur konungur tók allar tekjur þær sem konungur átti um mitt land hinn næsta vetur eftir andlát Haralds konungs en Ólafur austur um Víkina en Sigröður bróðir þeirra hafði allt um Þrændalög. Eiríki líkaði þetta stórilla og fóru þau orð um að hann mundi með styrk eftir leita við bræður sína ef hann mætti fá einvaldsríki yfir landi öllu svo sem faðir hans hafði gefið honum.

En er Ólafur og Sigröður spyrja þetta þá fara sendimenn milli þeirra. Því næst gera þeir stefnulag sitt og fer Sigröður um vorið austur til Víkur og finnast þeir Ólafur bræður í Túnsbergi og dvöldust þar um hríð.

Það sama vor býður Eiríkur út liði miklu og skipum og snýr austur til Víkur. Eiríkur konungur fékk svo mikið hraðbyri að hann sigldi dag og nótt og fór engi njósn fyrir honum.

Og er hann kom til Túnsbergs þá gengu þeir Ólafur og Sigröður með lið sitt austur úr bænum á brekkuna og fylktu þar. Eiríkur hafði lið miklu meira og fékk hann sigur en þeir Ólafur og Sigröður féllu þar báðir og er þar haugur hvorstveggja þeirra á brekkunni sem þeir lágu fallnir. Eiríkur fór um Víkina og lagði undir sig og dvaldist þar lengi sumars. Tryggvi og Guðröður flýðu þá til Upplanda.

Eiríkur var mikill maður og fríður, sterkur og hreystimaður mikill, hermaður mikill og sigursæll, ákafamaður í skapi, grimmur, óþýður og fálátur. Gunnhildur kona hans var kvinna fegurst, vitur og margkunnig, glaðmælt og undirhyggjumaður mikill og hin grimmasta. Þau voru börn þeirra Eiríks og Gunnhildar: Gamli var elstur, Guttormur, Haraldur, Ragnfröður, Ragnhildur, Erlingur, Guðröður, Sigurður slefa. Öll voru börn Eiríks fríð og mannvæn.