Heimskringla/Haralds saga gráfeldar/11

Úr Wikiheimild

Guðröður konungur Bjarnarson hafði sér fengið gott kvonfang og maklegt. Þau áttu son er Haraldur hét. Hann var sendur til fósturs upp á Grenland til Hróa hins hvíta, lends manns. Sonur Hróa var Hrani hinn víðförli. Voru þeir Haraldur mjög jafnaldrar og fóstbræður.

Eftir fall Guðröðar föður síns flýði Haraldur er kallaður var hinn grenski fyrst til Upplanda og með honum Hrani fóstri hans og fáir menn með þeim. Dvaldist hann þar um hríð með frændum sínum.

Eiríkssynir leituðu mjög eftir þeim mönnum er í sökum voru bundnir við þá og þeim öllum mest er þeim var uppreistar af von.

Það réðu Haraldi frændur hans og vinir að hann færi úr landi í brott. Haraldur grenski fór þá austur til Svíþjóðar og leitaði sér skipanar og að koma sér í sveit með þeim mönnum er í hernað fóru og fá sér fjár. Haraldur var hinn gervilegsti maður.

Tósti hét maður í Svíþjóð er einn var ríkastur og göfgastur í því landi, þeirra er eigi bæru tignarnafn. Hann var hinn mesti hermaður og var löngum í hernaði. Hann var kallaður Sköglar-Tósti. Haraldur grenski kom sér þar í sveit og var með Tósta um sumarið í víkingu og virtist Haraldur hverjum manni vel. Haraldur var eftir um veturinn með Tósta.

Sigríður hét dóttir Tósta, ung og fríð og svarkur mikill. Hún var síðan gift Eiríki Svíakonungi hinum sigursæla og var þeirra sonur Ólafur sænski er síðan var konungur í Svíþjóð. Eiríkur varð sóttdauður að Uppsölum tíu vetrum síðar en Styrbjörn féll.