Heimskringla/Ynglinga saga/26

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Egill hét sonur Auns hins gamla er konungur var eftir föður sinn í Svíþjóðu. Hann var engi hermaður og sat að löndum í kyrrsæti. Tunni hét þræll hans er verið hafði með Ána hinum gamla, féhirðir hans. En er Áni var andaður þá tók Tunni óf lausafjár og gróf í jörð. En er Egill var konungur þá setti hann Tunna með þrælum öðrum. Hann kunni því stórilla og hljóp í brott og með honum margir þrælar og tóku þá upp lausaféið er hann hafði fólgið. Gaf hann það mönnum sínum en þeir tóku hann til höfðingja. Síðan dreif til hans mart illþýðisfólk, lágu úti á mörkum, stundum hljópu þeir í héruð og rændu menn eða drápu.

Egill konungur spurði þetta og fór leita þeirra með liði sínu. En er hann hafði tekið sér náttstað á einni nótt þá kom þar Tunni með liði sínu og hljóp á þá óvara og drápu lið mikið af konungi. En er Egill konungur varð var við ófrið þá snerist hann til viðtöku, setti upp merki sitt en lið flýði mart frá honum. Þeir Tunni sóttu að djarflega. Sá þá Egill konungur engan annan sinn kost en flýja. Þeir Tunni ráku þá flóttann allt til skógar. Síðan fóru þeir aftur í byggðina, herjuðu og rændu og fengu þá enga mótstöðu. Fé það allt er Tunni tók í héraðinu gaf hann liðsmönnum sínum. Varð hann af því vinsæll og fjölmennur.

Egill konungur safnaði her og fór til orustu í móti Tunna. Þeir börðust og hafði Tunni sigur en Egill flýði og lét lið mikið. Þeir Egill konungur og Tunni áttu átta orustur og hafði Tunni sigur í öllum. Eftir það flýði Egill konungur landið og út í Danmörk á Selund til Fróða hins frækna. Hann hét Fróða konungi til liðs skatti af Svíum. Þá fékk Fróði honum her og kappa sína. Fór þá Egill konungur til Svíþjóðar en er Tunni spyr það fór hann í móti honum með sitt lið. Varð þá orusta mikil. Þar féll Tunni en Egill konungur tók þá við ríki sínu. Danir fóru aftur.

Egill konungur sendi Fróða konungi góðar gjafir og stórar á hverjum misserum en galt engan skatt Dönum og hélst þó vinfengi þeirra Fróða. Síðan er Tunni féll réð Egill konungur ríkinu þrjá vetur.

Það varð í Svíþjóðu að griðungur sá er til blóts var ætlaður var gamall og alinn svo kappsamlega að hann var mannýgur. En er menn vildu taka hann þá hljóp hann á skóg og varð galinn og var lengi á viðum og hinn mesti spellvirki við menn. Egill konungur var veiðimaður mikill. Hann reið um daga oftlega á markir dýr að veiða.

Það var eitt sinn að hann var riðinn á veiðar með menn sína. Konungur hafði elt dýr eitt lengi og hleypti eftir í skóginn frá öllum mönnum. Þá verður hann var við griðunginn og reið til og vill drepa hann. Griðungur snýr í móti og kom konungur lagi á hann og skar úr spjótið. Griðungur stakk hornunum á síðu hestinum svo að hann féll þegar flatur og svo konungur. Þá hljóp konungur á fætur og vill bregða sverði. Griðungur stakk þá hornunum fyrir brjóst honum svo að á kafi stóð. Þá komu að konungsmenn og drápu griðunginn. Konungur lifði litla hríð og er hann heygður að Uppsölum.

Svo segir Þjóðólfur:

Og lofsæll
úr landi fló
Týs áttungr
Tunna ríki.
En flæming
farra trjónu
jötuns eykr
á Agli rauð.
Sá er um austr
áðan hafði
brúna hörg
um borinn lengi,
en skíðlaus
Skilfinga nið
hæfis hjör
til hjarta stóð.