Jómsvíkinga saga/18. kafli

Úr Wikiheimild
Jómsvíkinga saga
18. kafli

Byggt á útgáfu Ólafs Halldórssonar frá 1969

18. kafli - Frá Véseta[breyta]

Nú verður þar til máls að taka er Véseti er, að hann er ræntur einu búi sínu því er auðgast var, og kömur þetta nú brátt til eyrna Véseta, og tekur hann það til ráðs í fyrstunni, að hann setur aftur sonu sína að geysingum öllum og yfirgangi, en fer sjálfur á fund Sveins konungs og segir honum til hvað títt var um þá Haralds sonu, og hversu þeir höfðu ræntan hann og tekið upp bú hans það er hann átti eitt hvert auðgast.

Konungur svarar: „Það ráð legg eg til með þér,“ segir hann, „attú skalt nú vera láta fyrst kyrrt. En eg mun senda orð Strút-Haraldi og vita ef hann vili gjalda upp fé fyrir sonu sína, svo attú sér haldinn af, og vil eg attú látir þér það vel líka.“

Nú fer Véseti heim við svo búið, en Sveinn konungur sendir þegar menn eftir Haraldi jarli og bað hann koma á sinn fund. Jarl leggst eigi förna undir höfuð og fer þar til er hann kemur til konungs, og er þar tekið við honum vel. Nú spyr konungur eftir Harald jarl, hvað hann vissi til hvern auvislal synit hans hefði görvan Véseta. Hann kveðst ógörla vita. Konungurinn segir honum að þeir höfðu tekið upp bú hans eitt, það er mest var, og beiddi hann þess, að hann skyldi bæta fyrir þá fjárhlutum og væri síðan kyrrt. En jarl svarar og kveðst ófengið enn hafa þess fjárins er hann mundi bæta fyrir það, þótt ungmenni tæki naut eða sauði til matar sér.

Konungur mælti: „Þá muntu fara heim við svo búið,“ segir konungurinn, „og hefi eg nú sagt yður vilja minn. En nú mun eg þó svo fyrir mæla, attú ábyrgist þig nú sjálfur við sonum Véseta og svo fé þitt, og mun eg nú eiga að öngan hlut, þar er þú vill það ekki hafa er eg legg til með þér, og viltu það einu hafa er þér sýnist, og varir mig að þessu muni vera misráðið.“

Haraldur jarl svarar og kveðst sjálfur mundu vera í ábyrgð um það, en lézt ekki mundu það við hann meta, - „og em eg stórum óhræddur við Véseta og sonu hans.“

Og nú eftir þetta fer Haraldur jarl heim, og er ekki getið um ferð hans, að néeitt yrði til tíðenda.