Jómsvíkinga saga/19. kafli

Úr Wikiheimild
Jómsvíkinga saga
19. kafli

Byggt á útgáfu Ólafs Halldórssonar frá 1969

19. kafli - Frá Búa digra[breyta]

Það er nú að segja þessu næst, að Véseti og synir hans frétta viðræðu þeirra Haralds jarls og Sveins konungs, og svo hverjar lyktir á féllu þeirra tal, svo og það er jarl hafði mælt að skilnaði, áður en þeir konungur skildist.

Nú ætla þeir ráð fyrir sér, Véseta synir. Það er þeirra tiltekja, að þeir búa skip þrjú, þau er öll voru stór, og hafa þar með tvö hundruð manna, og búa það lið sem bezt megu þeir; fara síðan þar til er þeir koma á Sjóland og taka þar upp þau þrjú bú Haralds jarls er auðgust voru þeirra er hann átti. Og eftir það fara þeir heim synir Véseta með þetta hið mikla fengi er þeir hafa nú aflað.

Og nú koma brátt þessi örendi fyrir jarlinn Strút-Harald, að hann var ræntur og tekin upp þrjú hans bú, þau er auðgust voru. Kemur nú í hug hvað konungurinn hafði spáð honum. Hann gerir nú þegar menn á fund konungsins, ef hann vildi nú hlut í eiga að sætta þá, og kveðst nú vilja gjarna hans umb dæmi. En konungur svarar nú þessu, að - „nú skal Haraldur jarl hafa ráð sín hin góðu, en nú mun eg ekki láta til mín taka, þvíað hann vildi ekki mín ráð við hafa, þá er við ræddum þetta mál, og var þá umb minna að dæma en nú er, og hafi hann nú sjálfur einræði sitt, en eg mun mér öngu af skipta.“

Nú fara sendimenn jarls heim aftur og segja honum svör konungsins.

„Vér munum þá verða taka til vorra ráða,“ segir jarl, „ef konungurinn vill sitja kyrr hjá málunum.“

Haraldur jarl fær sér nú tíu skip og býr sem bezt að mönnum og vopnum, og fer síðan með þessu liði allt þar til er þeir koma í Borgundarhólm, og þar hlaupa þeir á land upp og taka upp þrjú bú fyrir Véseta, þau er eigi voru verri en þau er synir Véseta höfðu upp tekið fyrir Haraldi jarli.

Haraldur jarl vendir nú aftur til Sjólanda með þetta fé og þykist nú vel hafa hefnt sín í þessi ferð.

Svo er nú sagt að eigi líður langt héðan, áður en þetta spyr Véseti: fjárskaða þennan allan er orðinn var, og tekur hann það ráð, að hann fer þegar á fund Sveins konungs, og tekur hann vel við honum. Síðan ræðir Véseti mál sitt fyrir konunginum og tjár á þessa leið: „Það muntu spurt hafa, herra,“ segir hann, „að þungt hefir á lagzt með okkur Strút-Haraldi jarli of hríð, og varir mig að ófriður myni af gerast sjálfra landsmanna í milli ef þér eigið öngan hlut í með oss, og kann vera að verra sé síðar en nú, svo komið sem er, þvíað yðrir menn eru hvorirtveggju, herra.“

Konungur svarar á þessa lund: „Eg mun bráðlega fara til þings þess er heitir Íseyrarþing, og mun eg boða þangað Haraldi jarli, og skulu þið þar sættast með tillögu góðra manna og voru umbdæmi, og mun sá nú jarli hinn bezti að vér setim máli þessu eftir því er oss líkar, allra helzt er oss þykir þú vel fara með þínu máli.“

Og eftir þetta fer Véseti heim, og liðu nú svo fram stundir, þar til er Sveinn konungur og hans föruneyti búast til þingsins.

Sveinn konungur hefir fimm tigu skipa, og því svo mikið lið, að hann vill einn skipa í milli þeirra um allt það sem í er orðið með þeim.

Haraldur jarl átti skammt að fara til þingsins, og hefir hann eigi meir en tuttugu skip. Véseti fer og til þingsins og hefir þrjú ein skip. Það er og sagt, að synir hans voru eigi í ferð með honum, þeir Búi digri og Sigurður kápa.

Og nú er konungur og jarl og Véseti voru komnir á þingið, þá setur Véseti tjöld sín niðri við sjó hjá sundi því er að gengur þingstöðinni. En Strút-Haraldur jarl hafði tjaldað upp frá stund þá. En þar á milli setur konungur sínar herbúðir.

Og er á leið kveldið, þá sá þeir þaðan af þinginu fara frá heimili Haralds jarls tíu skip. Og er þeir nálgast þangað, þá leggja þeir menn í lægi skip sín, og síðan ganga þeir menn á land upp frá skipum með sveit sína. Þeir snara þegar á þingið.

Nú eru þessir menn brátt kenndir, að þar eru komnir þeir synir Véseta, Búi og Sigurður. Búi hinn digri var þá búinn mjög ítarlega að klæðum, fyrir því að hann var þá í klæðum þeim er Haraldur jarl átti. En sá búnaður var svo fémikill, að til komu tuttugu merkur gulls. Þeir hafa og tekið upp fyrir jarli tvær gullkistur og svo mjög hlaðnar af gulli, að í hvorri kistunni voru tíu hundruð marka gulls. Hatt jarls hafði Búi digri á höfði sér, þann er til komu tíu merkur gulls.

Þeir ganga nú á þingið, bræður, alvopnaðir og með fylktu liði og snarplegu. Og er þeir voru þar komnir, þá tekur Búi til orða og kveður sér hljóðs. Og er hljótt var orðið, þá mælti hann til jarlsins Strút-Haralds: „Hitt er nú ráð, jarl,“ segir hann, „ef þú ber nokkur kennsl á gripi þessa er nú muntu sjá á oss skína, attú sæk nú til óraglega ef þú þorir og sé nokkur dáð í þér, fyrir því að lengi hefir þú stórt bergt við oss frændur. Em eg nú og albúinn að berjast við þig, ef nokkurt er mannsmót í þér.“

Sveinn konungur heyrir orð Búa, og þykist það sjá að hann fær eigi haldið sinni tign ef hann lætur þá berjast þar á þinginu og gingi eigi á milli þeirra, er hann hafði svo mikið af tekið, að þeir skyldu þar sættast á þinginu, og tekur konungurinn nú það ráð, að hann gengur á milli þeirra og lætur þá eigi ná að berjast, og kömur þar nú því máli loks við atgöngu konungsins og afla, að nú verða hvorirtveggju því að játa, að konungurinn skipi einn á millum þeirra, eftir því sem hann vill. En það skorar Búi í sættina, að hann læzt aldrigi mundu lausar láta gullkisturnar þær er hann hafði fingið af jarli og önga gripi hans, en bað konunginn ráða öðru sem hann vildi.

Konungur svarar: „Þú Búi,“ segir hann, „stór verður þú oss. Nú hafðu þitt mál um gullkisturnar, en jarl svo mikið fé annað, að hann þykist haldinn af. En lausa verður þú að láta, Búi digri,“ segir hann, „gripi jarls, þá er þú hefir tekið, og gera honum eigi þá hneisu eða svívirðu að hann nái eigi tignarklæðum sínum.“

Svo lýkur, að konungur verður að ráða, og fer Búi af klæðunum.

Nú hélt konungurinn af því mest til þessa um, að gripir jarls raknaði, að það þótti jarli sér mest svívirðing ef hann skyldi eigi ná að hafa gripi sína. Og nú verða þeir á það sáttir að konungur skyldi þannig skipa með þeim sem nú hafði hann ákveðið um gripina, og gera og slíkt of annað sem þá sýndist honum jöfnuður milli þeirra.

Og síðan lýkur konungur upp gerðinni og fer þaðan að málinu, sem hann hafði áður sagt á von umb, að Búi skal þegar láta lausa gripina jarls, en hafa sjálfur gullkisturnar báðar til heilla sátta við jarl. Þeir skulu og aftur gjalda bú þau er upp voru tekin fyrir Strút-Haraldi jarli. - „En hann skal það leggja í móti yður til sæmdar að gifta Tófu dóttur sína Sigurði kápu, og skulu henni heiman fylgja þessi fé, og skal eigi öðruvís aftur gjalda upptöku búanna en þeir taka það undir sjálfum sér.“

Því gerði konungurinn þannig sættina, að honum þótti þetta vænst til að um heilt mætti gróa með þeim og sættin mætti lengst haldast með þeim, ef mægðin tækist. Þessu taka þeir vel feðgar, og leggur Véseti til við Sigurð þriðjung alls fjár síns. Og þykir Sigurði hið vænsta of kvonfang þetta er honum er ætlað, og sættast þeir nú að þessu og fara þegar af þinginu til Strút-Haralds jarls, og skal þá vera þegar brullaup þeirra Sigurðar.

Þangað fer sjálfur konungurinn til þeirrar veizlu og Véseti og synir hans, sem líklegt var. Og er nú drukkið brullaup þeirra Sigurðar og Tófu með mikilli tign og virðu.

Og eftir boðið fer konungur heim, sæmdur með gjöfum, og aðrir boðsmenn. Véseti fer nú og heim og synir hans til Borgundarhólms, og er Tófa þar í för með þeim, jarls dóttir.

Og er nú kyrrt of hríð og friður góður allra manna í millum.