Jómsvíkinga saga/2. kafli

Úr Wikiheimild
Jómsvíkinga saga
2. kafli

Byggt á útgáfu Ólafs Halldórssonar frá 1969

2. kafli[breyta]

Haraldur er nefndur jarl einn er réð fyrir Hollsetulandi; hann var kallaður Klakk-Haraldur. Hann var vitur maður. Hann átti sér dóttur eina er Þyri er nefnd; hún var allra kvenna vitrust og réð drauma betur en aðrir menn. Hún var og fríð sjónum.

Þar þóttist jarl eiga öll landráð er dóttir hans var, og lét hann hana öllum hlutum ráða með sér, og unni hann henni afar mikið.

Og nú er Gormur var frumvaxta orðinn og hann hafði tekið við konungdómi, þá fór hann úr landi og ætlaði það ráð fyrir sér að biðja dóttur Haralds jarls; og ef hann vildi eigi gifta honum konuna, þá hugði hann að jarl mundi verða að þola honum her.

Og nú er þau Haraldur jarl og dóttir hans Þyri spyrja til fara Gorms konungs og hans fyrirætlan, þá senda þau menn í móti honum og bjóða honum til veizlu virðilegrar, og það þiggur hann, og situr hann þar nú að málum sínum með vegsemd. Og er hann hefir upp borið sín örendi fyrir jarl, þá veitir hann þau annsvör, að hún skyldi sjálf fyrir ráða, „þvíað hún er miklu vitrari en eg.“ Og nú er konungur skorar þetta mál við hana sjálfa, þá svarar hún svo:

„Eigi mun þetta ráðast þessu sinni, og skaltu nú heim fara að svo búnu með góðum gjöfum og virðilegum, og ef þér er mikið um ráðahag við mig, þá skaltu brállega er þú kemur heim láta gera eitt hús svo nokkoro mikið að þér sé skaplegt að hvíla í. Þar skal húsið sett er eigi hafi fyrr hús verið gert. En þar skaltu sofa í vetrarnátt hina fyrstu og þrjár nætur í samt, og mundu glöggt eftir ef þig dreymir nokkvað og send síðan menn á minn fund, að þeir segi mér drauma þína ef nokkorir eru, og mun eg þá að kveða fyrir þeim, hvort þú skalt fá þetta ráð eða eigi. Nú þarftu eigi að vitja ráðahags þessa ef þig dreymir ekki.“

Og eftir þessa viðræðu þeirra, þá er Gormur konungur skamma stund á þessi veizlu og býst heim og er títt að reyna þessa vitru hennar og tilskipan, og fer hann nú heim með mikilli sæmd og virðilegum gjöfum. Og er hann er heim kominn, þá fer hann svo með öllu sem hún hafði honum ráð til kennt: lét nú gera húsið og gengur síðan í þetta hús, svo sem fyrir var mælt. Hann lét vera úti hjá húsinu þrjú hundruð manna alvopnaðra og bað þá vaka og halda vörð, og kömur í hug að vera muni svik. Og nú leggst hann niður í rekkju þá er gör var í húsinu og sofnar, og eftir það dreymir hann. Og þar sefur hann þrjár nætur í húsinu.

Og nú eftir þetta sendir konungur menn sína og á fund Haralds jarls og Þyri dóttur hans og lætur segja henni drauma sína. Og er þeir komu á fund jarls og dóttur hans, þá var þeim þar vel fagnað; og síðan bera þeir upp drauma konungs fyrir dóttur jarls. Og er hún hafði heyrt draumana, þá mælti hún: „Nú skulu þér hér vera svo lengi sem þér vilið sjálfir. En þér megið svo segja konungi yðrum, að eg mun ganga með honum.“

Og er þeir koma heim, þá segja þeir konungi þessi tíðendi. Konungur verður við þetta léttúðigr og kátur.

Og brátt eftir þetta býst konungur heiman með miklu liði að vitja þessa mála og brullaups síns, og ferst honum vel, þar til sem hann kemur til Hollsetulands. Haraldur jarl hafði frétt til ferða hans, og lætur Þyri gera dýrlega veizlu og mikinn fagnað í móti honum, og tekst nú ráðahagur þeirra í milli og miklar ástir. En það er haft að skemmtan að veizlunni, að Gormur konungar segir drauma sína, en hún réð þá eftir.

Konungur segir svo, að hann dreymdi vetrarnátt hina fyrstu og þrjár nætur þær er hann svaf í húsinu. Það dreymdi hann að hann þóttist úti staddur vera og sjá yfir allt ríki sitt; hann sá að sjórinn féll út frá landi svo langt að hann mátti hvergi auga yfir reka, og svo mikil varð fjaran að þurr voru öll eyjasundin og firðir. En eftir þessi tíðendi, þá sá hann að eyxn þrír hvítir gingu upp úr sænum og runnu á land upp þar nær sem hann var og bitu af allt gras að snöggu þar er þeir komu að. Og eftir það þá gingu þeir á braut.

Sá var annar draumur er þessum er mjög áþekkur, að honum þykir enn sem þrír eyxn gingi upp úr sænum; þeir voru rauðir að lit og hyrndir mjög. Þeir bitu enn gras af jörðunni, jafnt sem hinir fyrri. Og er þeir höfðu þar verið nökkverja hríð, þá gingu þeir enn aftur í sæinn.

Enn dreymdi hann hinn þriðja draum, og var sá enn þessum líkur. Enn þóttist konungurinn sjá þrjá eyxn ganga upp úr sjónum; þeir voru allir svartir að lit og miklu mest hyrndir, og voru enn nokkora hríð og fóru hina sömu leið í braut og gingu aftur í sjóinn. Og eftir það þóttist hann heyra brest svo mikinn að hann hugði að heyra mundi um alla Danmörk, og sá hann að það varð af sjóvarganginum, er hann gekk að landinu. „En nú vil eg, drottning,“ segir hann, „attú ráðir draumana til skemmtunar mönnum og lýsir svo yfir viturleik þínum.“

Hún mæltist eigi undan og ræður draumana. Og tók hún fyrst að skipa þeim draumnum er fyrst var og sagði svo:

„Þar er eyxn gingu upp úr sænum á land hvítir að lit, þar munu vera vetur þrír miklir, og mun falla snær svo mikill að árferð mun af taka um alla Danmörk. En þar er þér þótti ganga upp úr sænum aðrir þrír eyxn og voru þeir rauðir, þar munu koma aðrir þrír vetur snælitlir, og þó eigi litlir, fyrir því að þér þótti eyxninir bíta gras af jörðunni. En þar er hinir þrír eyxn gingu upp úr sæ svartir að lit, þar munu koma hinir þriðju þrír vetur. Þeir munu vera svo illir, að það munu allir um mæla, að engi myni slíka, og það svarta óáran mun koma og nauð yfir landið, að trautt munu dæmi til finnast. En það er þér þótti eyxninir mjög vera hyrndir, þar munu margir menn verða þess hornungar er eigu. En það er þeir gingu aftur allir í sæinn sem að höfðu komið, eyxninir, og þú heyrðir brest mikinn er særinn féll á land, það mun vera fyrir ófriði stóreflismanna, og munu þeir hér finnast í Danmörku og eiga hér bardaga og orrostur stórar. Þess er mér og vonir, að þeir menn sé þér nánir sumir að frændsemi, er við verða staddir við þenna ófrið. Og ef þig hefði þetta dreymt hina fyrstu nátt, er síðast var í drauminum, þá myndi ófriðurinn fram koma á þínum dögum. En nú mun ekki til saka, og eigi hefða eg gingið með þér ef þig hefði svo dreymt sem áður gat eg. En við mun eg gert geta öllum þessum draumum er þig hefir dreymt fyrir hallærinu.“

Og nú eftir veizlu þessa, þá byrja þau ferð sína, Gormur konungur og Þyri drottning, heim til Danmerkur og létu hlaða mörg skip af korni og annarri gæzku og flytja svo ár í Danmörk, og á hverjum misserum þaðan frá, allt til þess hallæris er hún hafði fyrir sagt.

Og þá er það hallæri kömur, þá sakar þau alls ekki, fyrir viðbúnaðar sakir, og þá menn er í nánd þeim voru í Danmörku, þvíað þau miðluðu þaðan mikil gæði öllum landsmönnum sínum. Og þótti Þyri vitrust kona komið hafa í Danmörk og var kölluð Danmarkarbót.

Þau Gormur konungur og Þyri áttu tvo sonu, og hét Knútur hinn ellri, en Haraldur hinn yngri. Þeir voru báðir efnilegir menn, og þótti Knútur hinn vitrari í æsku þeirra, og hann var fyrir flestum mönnum um vænleik og atgervi og um allar íþróttir þær er þá voru frammi hafðar í þann tíma. Hann var hvítur á hárslit og hverjum manni gervilegri. Hann óx upp með jarlinum Klakk-Haraldi afa sínum, og fóstraði hann Knút og unni honum mikið. Hann var og vinsæll í sínum upprunum. En Haraldur var fæddur heima með hirð föður síns. Hann var þeirra bræðra mjög miklu yngri, og var snemmendis ýgur og æfur og illur viðskiptis, og varð hann fyrir því óvinsæll í sínum upprunum.

Það er nú sagt eitthvert sinn, að Gormur konungur sendir menn til fundar við Harald jarl mág sinn þeirra örenda að bjóða honum til jólaveizlu með sér. Jarl tók því vel og hét að fara um veturinn til veizlunnar. Og eftir það fara aftur konungs menn og segja svo konunginum, að jarls var von til veizlunnar.

Og er að því kom er jarl skyldi heiman búast, þá valdi hann sér slíkt föruneyti sem hann vildi til veizlunnar. En það er eigi sagt hversu fjölmennur hann fór.

Þeir fara nú ferðar sinnar þar til er þeir koma að Limafirði. Þá sá þeir þar standa eik eina, þá er þeim þótti mjög með kynlegu móti vera: Þar voru vaxin á epli heldur smá, en þau voru græn og blómguð, en undir eikinni, þar lágu önnur epli; þau voru bæði forn og stór. Þeir undrast þetta mjög, og segir jarl að honum þykir þetta undur mikið, er græn voru eplin í þann tíma missera, sem þá var, þvíað þeirra sá stað hjá eikinni er um sumarið höfðu vaxið - „og munu vér hverfa aftur,“ segir jarl, „og fara eigi lengra.“

Og það er nú frá sagt að hann hverfur nú aftur og allt föruneyti hans og fóru þar til er þeir komu heim, og sat jarl þau misseri heima með hirð sinni um kyrrt.

Nú þykir konungi kynlegt er jarl kom eigi, og ætlaði þó að nokkorar nauðsynjar mundi fyrir standa.

Nú er kyrrt um hríð, og það sumar.

Og er annar vetur kemur, þá sendir konungur enn menn sína til Hollsetulands að bjóða jarli mági sínum til jólaveizlu jafnt sem hið fyrra sinn, og þarf nú eigi að lengja sögu um það mál, að jarl heitur förinni enn, og fara sendimenn nú heim og segja konungi svo búið.

Og nú kemur þar misserum er jarl fer heiman með föruneyti sitt og fara nú enn þar til er þeir koma til Limafjarðar og voru nú á skip komnir og ætluðu nú yfir fjörðinn að fara. En það er frá sagt, að í för voru með þeim hundar blauðir, og lágu hvelpar í hundunum. En er þeir voru á skip komnir, þá þótti jarli sem gæi hvelparnir í greyhundunum, en hundarnir þögðu. Þetta þótti jarli og öllum þeim hið mesta býsn, og lézt eigi vildu fram halda förinni og hurfu nú aftur og fóru heim og voru heima þau jól.

Nú fer því fram, þar til er kemur hinn þriði vetur. Og enn sendir konungur menn að bjóða jarli til jólaveizlu, og heitur hann enn förinni, og fara sendimenn aftur og segja konungi svo búið.

Enn býst jarl heiman; og þá er að því er komið, fer hann með föruneyti sitt og fara enn þar til er þeir koma til Limafjarðar, og fórst þeim vel og komu yfir fjörðinn, og var þá framorðið dags, og ætluðu að vera þar við fjörðinn um nóttina.

Og síðan bar sýn fyrir þá, er þeim þótti eigi einskis um vert: Þeir sá boða rísa í innanverðum firði, en annar í utanverðum, og gekk hvor í móti öðrum. En boðarnir voru miklir og gerði af ókyrrleik mikinn; og þeir féllu saman og mættust, og varð brestur hár, og það fylgdi því, að þeim þótti blóðgan gera sjóinn af. Þá mælti jarl: „Þetta eru stórbýsn,“ segir hann, „og skulu vér nú aftur hverfa, og vil eg eigi fara til veizlunnar.“

Nú gera þeir svo: fara heim, og sat jarl heima þau jól.

En í öðru lagi, þá varð konungur reiður mjög er jarl hafði öngu sinni þekkzt hans heimboð, en hann vissi eigi hvað til hafði haldið, er hann kom eigi. Og nú um veturinn, þá ætlaði Gormur konungur að herja upp á Harald jarl mág sinn, - þótti hann mjög hafa drabbað í móti sínu virðilegu boði, er hann hafði ekki sinn komið, þá er á var kveðið, og þótti honum jarl svívirðan sig hafa mjög í þessu.

Og þessarar fyrirætlanar Gorms konungs verður Þyri drottning vör, og taldi ofan þessa fyrirætlan „og samir þér eigi,“ segir hún, „að gera honum ófrið fyrir vorar sakir og tengda ykkarra, og liggja hér til miklu betri úrráð um þetta mál.“

Og nú af fyrirtölum drottningar, þá sefast konungur nakkvað svo og eyðist herförin. Síðan var það ráðs tekið, að Gormur konungur sendir menn sína eftir jarli og vildi vita hverju um sætti, er jarl hafði eigi komið, og hafði drottning það ráð til gefið, að þeir skyldu finnast fyrst mágarnir og talast við og sjá þá hvað við sig væri.

Og nú koma sendimenn konungs á fund jarls og bera fram konungs örendi og bregzt jarl nú við skjótt og fer á konungs fund með virðilegt föruneyti.

Konungur tekur nú vel að hófi við mági sínum.

Eftir það ganga þeir konungur og jarl í málstofu, og er þeir voru þar komnir, þá spyr konungur jarl:

„Hví sætti það,“ segir hann, „er þú komt öngu sinni er eg bauð þér til mín og svívirðir mig svo og mitt boð?“

Jarl svarar og kvaðst eigi til svívirðingar við hann gert hafa, þótt hann kæmi ekki sinn til veizlunnar, heldur kvað hann þar aðra hluti til halda. - Segir síðan konungi undrin þau er þeir höfðu séð og nú var áður frá sagt. Og síðan kveðst jarl skýra mundu fyrir konunginum ef hann vildi vita hvað hann ætlaði, hvað er tákna mundi eða fyrirbenda þessi hin miklu undur. En konungurinn játar því. Jarl mælti:

„Þar mun eg þá til taka er vér sám eikina með grænum eplum og smám. En forn epli og stór lágu hjá niðri. En það hygg eg vera munu fyrir siðaskipti því er koma mun á þessi lönd, og mun sá siður vera með meiri blóma og jarteina þau hin fögru epli. En sá siður er hingað til hefir verið mun tákna hin fornu epli er niðri lágu á jörðu og mundu þar fúna og verða að dusti einu, svo mun og þessi siður niður leggjast þá er hinn gengur yfir löndin, og mun þá verða að öngu og hverfa allt sem myrkur fyrir ljósi.

Annað undur var það er vér heyrðum hvelpana geyja í greyhundunum. Það hygg eg fyrir því munu vera að þeir menn er yngri eru að aldri munu taka mál fyrir munn hinum ellrum mönnum og gerast svo hvatvísir, og er mikil von að þeir hafi eigi minni hlut ráðanna, þóað hinir ellri sé oft ráðgari, og hygg eg að þeir myni enn ókomnir vera í heiminn, er eg mæla þetta til, þvíað hvelpar þeir gó er eigi voru komnir í heiminn. En greyhundarnir sjálfir þögðu.

Það var hið þriðja undur er vér sám boðana rísast í móti, annan úr innanverðum firði, en annan úr utanverðum, og mættust miðfirðis, og féll hvor í kverk öðrum, en særinn varð blóðugur af ókyrrleik þeim er þeir görðu. Það hygg eg vera munu fyrir missætti stóreflismanna hér innan lands, og munu þar af gerast stórir bardagar og mikil styrjöld, og er mikil von að þar verði nökkverr afspringur af þessum ófriði á Limafirði, þar sem þessi býsn bar fyrir oss, er nú hefi eg sögð.“

Konungi skildust vel orð jarls og þótti hann vera stórvitur. Og þar eftir gaf hann honum grið og frið, og rann nú konunginum reiði við mág sinn. En það er sagt, áður en þeir gingi í málstofuna, konungur og jarl, að Gormur konungur hefði setta menn til að bera vopn á jarl, er honum þótti sem órækt ein hefði til gingið og ofmetnaður, er hann hafði eigi farið til veizlunnar né einu sinni er hann hafði boðið honum, og þóttist hann þá vita mundu, er þeir hefði tekizt að orðum mágar. En nú þótti konungi sakir til, þótt hann hefði eigi komið.

Og nú ganga þeir í braut af stefnunni, konungur og jarl, og nú eftir það var jarl þar með honum nokkora hríð í mikilli sæmd, en síðan skildust þeir mágar sáttir og góðir vinir, og þá jarl góðar gjafir af konunginum áður en hann færi í braut, og fer hann nú með föruneyti sitt þar til er hann kemur heim.

En eigi miklu síðar, þá fór Haraldur jarl suður á lönd og kom í Saxland og tók við kristni og kom aldri síðan til ríkis síns, en gaf fóstra sínum Knúti og frænda allt ríki sitt, og tók nú Knútur við Hollsetulandi og öllu því ríki er átt hafði Haraldur jarl.