Jómsvíkinga saga/23. kafli

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Jómsvíkinga saga höfundur óþekktur
Byggt á útgáfu Ólafs Halldórssonar frá 1969

23. kafli[breyta]

Nú eftir þetta búast þeir Sigvaldi úr borginni tveim skipum til móts við Vagn. Og þegar er þeir hittast, þá leggja þeir saman randir og berjast. Og er svo frá sagt, að Vagn og félagar hans veita þeim Sigvalda hina snörpustu grjóthríð svo þegar, að þeir mega ekki annað en hlífa sér og forða, og hafa þeir þó ýrið að vinna, svo eru þeir ákafir hinir ungu menn. Og þegar er grjótið fættist, þá láta þeir eigi lengi þurfa að bíða höggvopna, og hafa þeir þá höggorrustu og berjast með sverðum allhreystimannlega.

En svo kom of síðir því máli, að Sigvaldi létti undan og flýr inn til landsins og vildi fá grjót. En þeir Vagn leggja eftir þeim, og finnast þeir nú á landi, og verður Sigvaldi nú við að hrökkva, hvort hann vill eða eigi, og verður þar nú með þeim önnur atlaga. Og er þeirra bardagi nú miklu ákafari og snarpari en hið fyrra sinn.

Og er það nú frá sagt, að þeim Sigvalda veitti sjá hríðin þungt. Þeir Pálnatóki eru nú staddir í kastalanum borgarinnar og sjá þaðan til hversu þessi leikur fer með þeim Sigvalda.

Nú sækja þeir Vagn að fast, svoað þeir Sigvaldi hopa undan á hæli og hans félagar, allt þar til er þeir koma að borginni, en hún var læst og lukt, og máttu þar eigi inn komast í borgina. Og varð nú við að snúast og veita vörn eða gefast upp ella.

Og nú sér Pálnatóki og þeir Jómsvíkingar að nú mun tveimur um skipta: annað hvort að Vagn mun fá yfir komið Sigvalda og lið hans, eða hitt ella að þeir munu verða að lúka upp borginni og komist hann svo undan með fjörvi, þvíað hann má nú eigi undan flýja og eigi mun hann viljað hafa, slíkur maður sem hann var.

Hér kemur máli, að Pálnatóki biður upp lúka borginni, - „og hefir þú Sigvaldi,“ segir hann, „trautt þinn maka við að eiga þar er sjá er frændi vor, og er nú mál að létta þessum leik, þvíað reynt er nú til fulls ykkat viðurskipti, og megu þér nú þekkja hvílíkur hvor ykkar er. Og er það mitt ráð,“ segir Pálnatóki, „ef yður sýnist svo, að vér takim við þessum hinum unga manni og liði hans, þótt hann sé nökkvi yngri að aldri en svo sem í lögum vorum er mælt. Og hlær mér þess hugur,“ segir hann, „of einn jafngamlan hér í voru liði, að né einn fái fang af honum, og er góð von á um slíka menn síðar, að slíkir láti sér eigi allt í augu vaxa.“

Nú gera þeir eftir því sem Pálnatóki mælti fyrir, og er nú upp lokið Jómsborg og slitið bardaganum með þeim. Og er nú Vagn í lög tekinn og allir hans menn.

Í bardaga þeirra Vagns og Sigvalda er sagt að fallið hafi af Sigvalda þrír tigir manna og jafnmargt lið af Vagni. En þó hafði Vagn einn virðing þeirra beggja af þessum fundi. Margir menn voru og sárir orðnir í bardaganum af hvorstveggja liði.

Nú er Vagn þar í Jómsborg með vild og samþykki allra höfðingja, þvíað svo stóðu lög þeirra til, að allir skyldu að einu ráði, þegar er þar kæmi, þótt áður hefði nakkvað um svarfað.

Vagn er sagt að svo gerist spakur maður og siðugur þar í Jómsborg, að engi maður var þar spakari né lystugari en Vagn Ákason né kunni betur allan sinn riddaraskap en hann. Hann fer úr landi hvert sumar og stýrir skipi og leggst í hernað, og var engi þeirra Jómsvíkinga meiri kempa en hann í framgöngu.

Því fer nú fram þrjú sumur í samt, frá því er hann kom í lið með þeim Jómsvíkingum, að þeir liggja úti hvert sumar á herskipum og hafa jafnan sigur, en um vetrunum eru þeir heima í Jómsborg. Og er þeirra nú víða getið um veröldina.