Jómsvíkinga saga/26. kafli

Úr Wikiheimild
Jómsvíkinga saga
26. kafli

Byggt á útgáfu Ólafs Halldórssonar frá 1969

26. kafli - Frá Sigvalda[breyta]

Og nú er þetta er tíðenda, þá fer Sigvaldi úr borginni og til fundar við Búrizláf konung. En konungurinn átti sér dætur þrjár, þær er nefndar eru til sögunnar, og hét Ástríður hin elzta og var allfríð sjónum og hin vitrasta, en sú er næst var henni að aldri hét Gunnhildur, en Geira hin yngsta; hennar fékk Ólafur Tryggvason.

Og er Sigvaldi er kominn á fund konungsins, þá býður hann honum tvo kosti: annað hvort að hann lézt eigi vera mundu í Jómsborg, eða ella gæfi hann honum Ástríði dóttur sína.

Konungur svaraði honum: „Það hafða eg ætlað fyrir mér,“ segir hann, „að eg munda hana þeim manni gefa er tignari væri fyrir nafns sakir en þú ert. En þó væri mér þess þörf attú færir eigi í brott úr borginni, og skulu vér ráða um þetta öll saman, hvað oss þyki ráðlegast af að hafa.“

Síðan hitti konungurinn Ástríði dóttur sína og spyr hana hversu henni væri að skapi þessi ráðahagur, að hún væri gift Sigvalda, „og vil eg,“ segir hann, „að við setim ráðið sem viturlegast, að Sigvaldi fari eigi brott úr borginni eða Jómsvíkingar, þvíað eg þarf þeirra mjög til landvarnar með mér.“

Ástríður svarar feður sínum: „Þér satt til að segja, faðir,“ segir hún, „þá vilda eg Sigvalda aldregi eiga, en þó skaltu honum eigi frá hnekkja, og þó á þá leið sem eg mun fyrir segja: Hann skal það vinna til ráðahags þessa, að koma af landinu öllum sköttum þeim er vér höfum hingað til goldið Danakonungi, áður en hann komi mér á arm. Hinn er annar kostur, að hann fái hingað komið Sveini Danakonungi, svo attú eigir vald á honum.“

Og eftir þetta ber konungurinn upp þetta mál fyrir Sigvalda, er þau mæltu til, og binda þau þetta síðan fastmælum með sér, og skal fram komið vera fyrir hin þriðju jól. En ef Sigvaldi kemur eigi þessu fram sem nú var skilið með þeim, þá skulu mál þeirra öll vera laus.

Sigvaldi fer nú heim eftir þetta til Jómsborgar.

Og á hinu sama vori fer hann með þrjú skip og þrjú hundruð manna þaðan úr Jómsborg. Hann fer til þess er hann kemur á Sjóland og hittir þar menn að máli og hefir fréttir til, að Sveinn konungur tekur veizlur skammt þaðan á land upp. Og nú er hann þykist glögglega spurt hafa til fara konungsins, þá leggur hann skip sín við nes eitt, þar er hvergi voru skip í nánd; en það var skammt frá bænum þar er konungurinn tók veizlu og drakk með sex hundruð manna.

Þeir Sigvaldi snúa skipum sínum og láta framstafna horfa frá landi og tengja saman hvert skip af stafni annars, og leggja þeir árar allar í háreiðar. Síðan sendi Sigvaldi tuttugu menn skilríkja til fundar við Svein konung og mælti að þeir skyldi það segja konungi, að hann vildi hitta hann að nauðsynjum, og það annað, að hann væri svo sjúkur, að hann væri nálega að bana kominn; - „það skulu þér og segja konunginum, að þar liggi honum nálega við allt ráð og líf.“

Og nú fara sendimenn til bæjarins og ganga í höll fyrir konunginn. Og sá er foringi þeirra var ber upp öll þessi erendi er þeir voru með sendir. Og er konungurinn heyrði þessi tíðendi, þá fer konungurinn þegar ofan til sjóvar og með honum þau sex hundruð manna er þar voru að veizlunni til fundar við Sigvalda. En þá er Sigvaldi verður þessa var að konungurinn var þangað á för, þá er það sagt að hann er á því skipinu er first var landi, og liggur hann nú í rekkju og gerist allmáttlítill. Hann mælti nú við sína menn: „Þá er þrír tigir manna eru út gingnir á það skip er næst er landinu, þá skulu þér hleypa út bryggju af landi og á skip út og mæla svo, að menn sökkvi eigi skipum undir oss og troðist eigi svo ákaft, og get eg að konungurinn myni ganga í fyrsta lagi. En þá er tuttugu menn eru komnir á miðskipið, þá skal kippa af þeirri bryggjunni er á það liggur skipið. En þá er konungur kömur á hið yzta skipið með tíunda mann, þá skal taka af bryggjuna milli skipanna.“

Nú er svo frá sagt, að konungurinn kemur þar með lið sitt og spyr að Sigvalda, en honum er sagt að hann mátti lítið, - „og liggur hann á yzta skipinu,“ - og gengur hann síðan á það skip er næst er landi og hvert af öðru, þar til er hann kömur á skip Sigvalda. Menn ganga og eftir honum, en Sigvalda lið fer svo með öllu sem hann hafði ráð til gefið.

Og nú er konungurinn er kominn á skip það er Sigvaldi liggur á, með hinn tíunda mann, þá spurði konungurinn ef Sigvaldi hefði mál sitt, en honum er sagt að hann hefir mál sitt, og er þó máttur sem minnstur. „Síðan gengur konungur að þar er Sigvaldi liggur og lýtur að honum niður og spyr, ef hann mætti nema orð hans, eða hver tíðendi hann kynni honum að segja, þau er honum lægi svo stórt við að þeir fyndist, sem Sigvaldi hafði honum orð um send.

„Lúttu nú að mér líttað, herra,“ segir hann Sigvaldi; „þá muntu heldur mega nema mál mitt, þvíað eg em nú lágmæltur.“

Og er konungur lýtur að honum niður, þá tók Sigvaldi hendi annarri um herðar konunginum, en annarri undir hönd honum, og er hann nú eigi allmeginlaus, og heldur hann nú eigi alllaust konunginum. Og í því byli, þá kallar Sigvaldi að öllum skipverjum, að þeir skyldu falla við árar allar sem tíðast, og svo gera þeir og röru nú í brott sem þeir máttu. En þessi sex hundruð manna standa eftir á landi og sjá á.

Og nú tekur konungur til orða og mælti: „Hvað er nú, Sigvaldi,“ segir hann; „viltu svíkja mig nú, eða hvað er fyrir ætlað? Eg þykjumst nú sjá,“ segir hann, „að tíðendum mun sæta. En það má eg eigi vita, til hvers koma mun þessi tiltekja.“

Sigvaldi svarar konunginum og mælti svo: „Eigi mun eg svíkja yður, herra, en fara verði þér nú með oss til Jómsborgar, og veita skulu vér yður það allt til virðingar sem vér megum, og allir yðrir menn, þeir er nú fylgja yður, skulu velkomnir með oss, og munu þér þá vita til hvers hvatki kemur, er þér komið þar til þeirrar veizlu er vér höfum yður búið, og skaltu þar einn fyrir öllu ráða; en vér skulum allir, sem skylt er, til þín lúta og veita þér alla sæmd þá er vér megum.“

„Það munu vér nú þekkjast,“ segir konungur, „úr því sem að ráða er.“

Þeir fara nú þar til er þeir koma til Jómsborgar, og þjónar Sigvaldi konunginum, sem vert var, og gera nú Jómsvíkingar í móti honum hina beztu veizlu og kallast allir hans menn vera. En Sigvaldi segir nú konunginum hver sök til er, er hann hafði konunginn úr landi hafðan, að hann lézt beðið hafa konu til handa honum, dóttur Búrizláfs konungs - „og þeirrar meyjar er eg vissa vænsta vera og bezt um sig, og tókumst eg það á hendur fyrir vináttu sakir við yður, herra, að því er mér sýnist, og vilda eg eigi attú misstir hins bezta kvonfangs.“

Því gat Sigvaldi nú við komið, að allir Jómsvíkingar sönnuðu þetta með honum. Konungurinn spurði hvað mærin héti. „Sú mær heitir Gunnhildur,“ segir Sigvaldi, „er eg hefi beðið þér til handa. En mér er föstnuð önnur dóttir hans, sú er Ástríður heitir, og er þó Gunnhildur fyrir hversvetna sakir framar, sem vera á. En þú, konungur, skalt hér vera að veizlu í Jómsborg, en eg skal fara á fund Búrizláfs konungs og vitja málanna fyrir hönd okkra beggja, og muntu nú verða mér að trúa til málanna þinna allra, og skulu vér yður og vel gefast.“

Nú eftir þetta fer Sigvaldi á fund Búrizláfs konungs með hundrað manna, og er góð veizla og vegsamleg ger honum í móti. Og er þeir konungur ræðast við, þá lézt Sigvaldi nú kominn til ráða við Ástríði og kvaðst nú því hafa á leið komið, sem til var mælt, að Sveinn Danakonungur var nú kominn til Jómsborgar og þeir áttu nú við hann alls kosti að gera við hann slíkt af sínu tilstilli og vitru sem þeir vildi, og bað þá konunginn og Ástríði gera sem þeim sýndist ráðlegast og viturlegast.

Þau ræddu nú um og leituðu nú ráða undir Sigvalda, bæði konungurinn og dóttir hans Ástríður, hvað honum sýndist ráðlegast um þetta mál, er til konungs tók Sveins.

Sigvaldi svarar: „Hugað hefi eg eitthvert ráðið um þetta málið,“ segir hann; „eg vil attú gefir Sveini konungi dóttur þína Gunnhildi og gerir hingaðför hans virðulega, en hann vinni það til ráðahags að hann gefi þér upp áður alla skatta þá er þú hefir áður átt honum að gjalda hingað til, og mun eg ganga með þeim málum ykkar í milli, og mun eg svo þeim málum fylgt geta, að þetta mun fram ganga sem nú hefi eg fyrir yður rætt.“

Nú eftir þessa viðræðu þeirra, þá fer Sigvaldi aftur með lið sitt, hundrað manna, þar til er hann hittir Svein konung, og spyr konungur brátt eftir hversu honum hefði málin gingið.

„Það er nú á yðru valdi, herra,“ segir hann. „Hvernveg er þess?“ segir konungur.

„Það þá,“ segir Sigvaldi, „ef þú vilt það til vinna að gefa upp áður skattana Búrizláfi konungi, áður en hann gifti þér dóttur sína. Máttu og á það líta, herra,“ segir „Sigvaldi, „að þitt er allt eftir hans dag, og er þetta þinn vegur meiri, attú eigir þann mág að undir öngan sé skattgildur, þvíað þeir þykja ávallt konungarnir minni er skattana gjalda, en hinir er eigi gjalda.“

Og nú telur Sigvaldi um fyrir Sveini konungi á marga vega, að honum skyldi þetta sýnast, og skorti hann hvorki til vit né orðfæri. Svo kömur þessu máli, að Sveini konungi sýnist þetta ráð, er Sigvaldi lagði til, og er honum títt til að þessi ráðahagur tækist, og er nú þetta ráðið og kveðið á brullaupsstefnu, og skulu bæði vera senn brullaupin.

Og er að því kömur, þá fara þeir allir til boðsins Jómsvíkingar, og er þar Sveinn konungur í för með þeim, og var þar hin ríkulegsta veizla að hvívetna, svo að þeir menn er þá voru uppi mundu eigi að veglegra boð hefði verið í Vindlandi en þetta.

Það er nú frá sagt hinn fyrsta aftan er menn sitja að brullaupi, að brúðirnar falda sítt, svo að ógerla má sjá þeirra yfirlit. En um morguninn eftir, þá eru þær vel kátar og skupla þá ekki.

Og nú hyggur Sveinn konungur vandlega að yfirlitum þeirra systra, þvíað hann hafði hvoriga fyrr séna en að því boði, og hafði hann það eina til er Sigvaldi hafði honum frá sagt þeirra vænleik og kurteisi systranna. Og er nú sagt að Sveini konungi lízt allra bezt á þá konuna er Sigvaldi átti og sýndist sú vera vænni og kurteisari en sín kona, og þykir Sigvaldi eigi til loks hafa hið sanna frá sagt. Og finnur nú Sveinn konungar að mikið stendur undan við hann í vinfenginu af hendi Sigvalda, og sér konungurinn nú með viturra manna ráði bragð hans allt, og drepur þó huldu á fyrir alþýðu manns, og nýtir það af allt sér til sæmdar og virðingar sem nú er í boði, þannig sem komið er málinu. Á hann nú og að taka Vindland að þriðjungi eftir daga Búrizláfs konungs.

Nú eftir þetta er slitið veizlunni. Fer nú Sveinn konungur í brott með Gunnhildi konu sína og hefir þaðan þrjá tigu skipa og fer með mikið lið í brott og margar gersimar. En Sigvaldi fer til Jómsborgar með konu sína Ástríði.

Og gangast nú mjög úr stað lögin þeirra frá því sem þau voru sett fyrir öndverðu af Pálnatóka og öðrum vitrum mönnum, og finna þeir það nú Jómsvíkingar, og eru þó nú allir samt þar í borginni of stundar sakir, og eru frægir mjög.