Jómsvíkinga saga/29. kafli

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Jómsvíkinga saga höfundur óþekktur
Byggt á útgáfu Ólafs Halldórssonar frá 1969

29. kafli - Frá Hákoni jarli[breyta]

Nú sendir jarl þegar menn norður á Hlaðir til Sveins sonar síns að segja honum hersöguna, og sendir honum orð til að hann samnaði liði um allan Þrándheim af sinni tilsýslu og kveðja upp alla þá menn er mikils eru verðir og svo hina er minna háttar eru, og sé búið hvert skip það þaðan, það er nokkur vöxtur er að.

En Guðbrandur hvíti var þar með jarli, er hann unni mest.

Og fer jarl nú þegar af veizlunni með því liði er hann fékk þar. Hann fer þar til er hann kömur ofan í Raumsdali, og síðan samnar hann liði um Norðmæri. En hann sendir Erling suður um Rogaland að segja tíðendin og samna þar liði; sendi jarl Erling þegar suður þá þangað, áður hann færi frá veizlunni, og sendir hann orð öllum vinum sínum, þeim er í landinu voru og öllum þeim er nokkur tilkvæmd var að, að þeir skyldu allir til hans koma með því liði er þeir fingi til. Og jamvel sendi jarl þeim mönnum orð, er hann var missáttur við, að þeir skyldu og koma á hans fund, og kveðst sættast mundu við hvern mann þeirra er sóttu á hans fund því sinni og veitti honum lið.

Eiríkur fer norður í Naumudal, son Hákonar jarls, í móti Sveini bræður sínum, og samnar liði sem hann má allt um eyjarnar hið ytra.

Það er sagt þá er Eiríkur siglir suður eftir Hamrasundum, að þar koma í móti honum skip; það voru herskip, og ræður sá maður fyrir liðinu er Þorkell hét og var kallaður Þorkell miðlangur; hann er rauður víkingur og í missætti við Hákon jarl. Þeir brjóta þegar upp vopn sín, víkingarnir, og ætla að leggja að þeim Eiríki. Þeir hafa þrjú skip. En þá er Eiríkur sér það, þá mælti hann við Þorkel miðlang:

„Ef þú vill berjast við oss,“ segir hann, „þá skulu vér búnir þess. En þó sæi eg hér betra ráð til.“

„Hvert er það?“ segir Þorkell.

„Óskaplegt sýnist mér,“ segir Eiríkur, „að vér berimst sjálfir Noregsmenn, þvíað nú mætti vera að fingist aðrir nær aukvisarnir. En ef þú vilt koma á fund föður míns með lið þitt og viltu veita honum slíkt sem þú ert til fær, þá munu þið sættast, og mun það þá eigi verða torsótt af föður míns hendi.“

En Þorkell svarar: „Þenna kost vil eg ef þú bizt í því, Eiríkur, að mér akist þetta eigi í tauma er þú segir, þá er eg hitti föður þinn.“

„Eg skal það annast,“ segir Eiríkur.

Og nú ræðst Þorkell miðlangur með sveit sína til liðs með Eiríki.

Og brátt eftir þetta finnast þeir bræðurnir, Eiríkur og Sveinn, og fara þeir nú til þess staðar er þeir höfðu ákveðið með sér, Hákon og Eiríkur, áður en þeir skildist. Og síðan hittast þeir þar allir feðgar, Hákon og Eiríkur og Sveinn, í þeim stað sem þeir höfðu mælt mót með sér og allur herinn skyldi hittast og saman koma. En það var á Sunnmæri við ey þá er heitir Höð, og kemur þar mart lendra manna. Þeir höfðu feðgar alls þrjú hundruð skipa, og voru mörg ekki allstór. Þeir liggja þar á vogi þeim er Hjörungavogur heitir og bera nú saman ráð sín, og liggja þar á voginum öllum flotanum.