Jómsvíkinga saga/3. kafli

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Jómsvíkinga saga höfundur óþekktur
Byggt á útgáfu Ólafs Halldórssonar frá 1969

3. kafli[breyta]

Nú er þar til máls að taka er þeir eru feðgar, Haraldur og Gormur konungur, að þeir urðu ósamþykkir þegar er Haraldur hafði nokkurn kraft aldursins. Þá tók Gormur konungur það ráð, að hann fékk honum skip nokkur og leysti hann svo í braut.

Haraldur var hvern vetur í Danmörku og hafði þar þá friðland.

Og er því hafði fram farið um hríð, þá er það sagt, að Haraldur beiddi þess Gorm konung föður sinn að hann skyldi fá honum slíkar eigur og ríki til eignar og forráða sem Klakk-Haraldur afi hans hafði fingið Knúti. En það fékk hann eigi af föður sínum, er hann beiddi.

Þaðan frá er það sagt að óþokki mikill lagðist á í milli þeirra bræðra, Knúts og Haralds, og þótti Haraldi þeirra görr mikill mun í hvívetna og grunaði að eigi mundi síðar minni.

Þess er og við getið eitt hvert sinn, að eitt haust kom Haraldur eigi til Danmerkur sem hann átti vanda til, að hafa þar vetursetu, og hafði hann herjað um sumarið í austurlönd. En í annarri sögn er þess getið að Gormur konungur sendir menn til Hollsetulands að bjóða Knúti syni sínum til sín að jólum.

Og nú er að því kom, þá fer Knútur heiman og hans föruneyti, og hafði hann þrjú skip. En svo hafði hann til ætlað um ferðina, að hann kom í Limafjörð atfangsdag jóla og síð dagsins.

Og það sama kveld kömur þar Haraldur bróðir hans með níu skipum eða tíu; hann var kominn úr Eystra-Salti, og hafði hann þar legið í víking um sumarið. Nú verður Haraldur var við að þar var Knútur fyrir bróðir hans þrem skipum, og minnist nú á þokka þann allan er gerzt hafði milli þeirra bræðra. Og biður nú menn sína herklæðast og brjóta upp vopn sín, - „og skal nú,“ segir hann, „til skarar skríða með okkur Knúti bróður mínum.“ Knútur verður og var við tiltekju Haralds bróður síns og fyrirætlan, og vill hann verjast, þótt þeir hefði lið minna. Taka þeir vopn sín og búast til varnar, og eggjar Knútur lið sitt.

Nú leggur Haraldur að þeim öllum megin, og lýstur þegar í bardaga með þeim bræðrum. En það var jafnt jólaaftan sjálfan er þeir börðust. En svo lýkur bardaganum að Knútur fellur þar og allt lið hans, eða nær því, þvíað Haraldur neytti þess er hann hatði lið miklu meira.

Eftir þessi tíðendi fara þeir Haraldur þar til er þeir komu í stöðvar Gorms konungs síð um aftan, og gingu þeir alvopnaðir til konungsbæjar. Og er það sumra manna sögn þeirra er fróðir eru, að Haraldur leitaði sér ráðs og þóttist eigi vita allgerla hversu hann skyldi að orkast, að segja föður sínum þessi tíðendi, fyrir þá sök, að Gormur konungur hafði þess heit strengt, að hann skyldi þess manns bani verða, er honum segði líflát Knúts sonar síns.

Haraldur sendir nú fóstbróður sinn þann er Haukur er nefndur á fund Þyri móður sinnar og bar henni til orð, að hún fingi það ráð nakkvað til gefið, er hann gæti ráðið úr þessum vanda. Litlu síðar kemur Haraldur sjálfur á fund móður sinnar og segir henni þessi tíðendi og leitar ráða við hana. En hún réð honum það ráð að hann skyldi sjálfur fara á fund föður síns og segja honum þau tíðendi, að haukar tveir höfðu barizt, og væri annar alhvítur, en annar grár, og væri þó báðir gersimar; en svo lyki með þeim að hinn hvíti fingi bana og þætti það skaði mikill.

Og nú eftir þetta gengur Haraldur í braut til liðs síns.

Og vonu bráðara fer hann til hallar föður síns, þar sem hann drakk inni með hirð sinni, og var konungurinn undir borðum og hirðin. Síðan gengur Haraldur inn fyrir föður sinn í höllina og segir honum síðan í frá haukunum, svo sem móðir hans hafði honum ráð til kennt, og lauk svo málinu að - „nú er dauður,“ segir hann, „hinn hvíti haukurinn.“ Og er hann hafði það mælt, þá kvað hann úti annað orð, og fór þá enn á fund móður sinnar.

Þess er eigi getið hvar hann hafði herbergi um náttina og lið hans.

En Gormur konungur réð ekki í þetta, svo að menn fyndi, er son hans hafði sagt honum. En konungur drakk meðan honum sýndist, og fór síðan að sofa.

En um náttina eftir er menn voru úr höll farnir til svefns, þá fer Þyri drottning til með menn sína og lét ofan taka allan hallarbúning. En síðan lét hún tjalda í staðinn blám reflum, þar til er altjölduð var höllin. Fyrir því gerði hún svo, að það var hygginna manna ráð í þann tíma, þá er harmsögur komu að eyrum mönnum, að segja eigi með orðum, og gera þá á þann veg sem nú lét hún gera.

Gormur hinn gamli reis síðan upp þann morgin og gekk í hásæti sitt og settist niður og ætlaði að taka til drykkju og leit á hallarveggina og búninginn er hann gekk utan eftir höllinni og þar nú í hásæti sem áður var frá sagt. Þyri sat í öðru hásæti hjá konunginum.

Konungur tók þá til orða og mælti: „Þú munt þessu ráðið hafa, Þyri,“ sagði hann, „er höllin er á þessa leið búin.“

„Fyrir því þyki þér það líklegra herra?“ segir hún.

„Því,“ sagði konungur, „að þú vill svo segja mér fall Knúts sonar míns.“

„Þú segir mér nú,“ sagði drottning.

Gormur konungur hafði staðið upp fyrir hásætinu er þau tóku þetta að ræða. En nú settist hann niður hart og svaraði öngu og hné upp að hallarvegginum og lét þá líf sitt. En síðan er konungur þaðan í braut borinn og færður til graftrar, og var haugur orpinn eftir hann að ráði Þyri drottningar.

Og nú eftir þetta sendir hún orð Haraldi syni sínum, að hann skyldi heim fara með öllu liði sínu og drekka erfi eftir föður sinn. Nú gerði hann svo, og verður erfið bæði gott og virðilegt.

Og nú hér eftir tekur Haraldur við landi og þegnum og því ríki öllu er faðir hans hafði átt, og síðan þingaði hann við landsmenn, og tóku Danir hann til konungs yfir það ríki allt er Gormur konungur faðir hans hafði átt, og situr síðan nokkura vetur í friði og stýrir ríki sínu með vegsemd og gildum sóma; er harðráður og gildur höfðingi og vinsæll.