Jómsvíkinga saga/32. kafli

Úr Wikiheimild
Jómsvíkinga saga
32. kafli

Byggt á útgáfu Ólafs Halldórssonar frá 1969

32. kafli[breyta]

Nú eftir þetta leggjast að fylkingar með þeirri tilskipan sem nú var tjáð og sagt. Og er Hákon jarl í fylkingu með Sveini syni sínum að efla hann í móti Sigvalda, og tekst nú hinn harðasti bardagi millum fylkinganna, og er hvorigum sóknar að frýja né framgöngu. Og er það sagt að að jöfnu gengur með þeim Sigvalda og þeim feðgum, svo að hvorigir láta undan síga sín skip.

En þá er svo er komið, þá geta þeir Hákon jarl að líta að Búi hefir á gört mikinn bug á fylkingu þeirra, þar sem hann var, hinn nörðra arminn, og höfðu þeir er við hann börðust látið síga skipin undan, og þótti þeim sem betra mundi firr honum. En hann gengur þó ávallt eftir eigi að síður, og verður hann þeim stórhöggur og fá þeir illt af honum, og er hann mannskæður í bardaganum. Jarl getur að líta, að mjög var jafnleiki í með þeim Eiríki og Vagni að svo búnu, og eru þeir í fylkingararminum syðra. Og nú leggur Eiríkur frá þaðan skip sitt það er hann er á sjálfur, og Sveinn bróðir hans öðru skipi, og fara þeir nú bræðurnir og leggja nú að Búa og berjast við hann og geta rétta fylking sína og eigi betur. En Hákon jarl berst við Sigvalda meðan.

En þá er Eiríkur kemur aftur í fylkingararminn syðra, þá hefir Vagn á gört mikinn bug á liði Eiríks og hafa látið undan sígast, og þá hafa sundur skila orðið skipin Eiríks, og hafa þeir Vagn gingið þar í gegnum fylkingina og lagt svo fast að þeim. Og nú verður Eiríkur reiður mjög er hann sér þetta, og leggur nú Járnbarðann að harðfenglega að skeiðinni þeirri er Vagn stýrði, og stinga þeir nú saman stöfnum og berjast þeir nú af nýju, og hefir eigi verið snarpari orrostan en nú er.

Og það er nú frá sagt, að Vagn og Áslákur hólmskalli hlaupa af skeið sinni og á Járnbarðann Eiríks, og gengur síðan með sínu borði hvor þeirra, og höggur Áslákur hólmskalli á tvær hendur, svo má að kveða. Og svo Vagn hið sama. Og svo ryðjast þeir nú umb, að allt hrökkur liðið fyrir.

Eiríkur sér það, að þessir menn eru svo óvægnir og óðir að eigi mun lengi hlýða svo búið, og mun þurfa sem bráðast að leita ráða í. Áslákur er maður sköllóttur, að því er sagt er, og hefir öngan hjálm á höfði: etur fram berum skallanum um daginn. Og er heiðviðri á og bjart veðrið og varmt, og fara margir menn af klæðum fyrir hita sakir og hafa ekki nema herklæðin ein. Og nú eggjar Eiríkur menn sína í móti þeim, og ráða þeir í móti Ásláki hólmskalla og bera vopn á hann, höggva í höfuð honum bæði með sverðum og öxum, og þótti þeim sem honum mundi eigi annað geigvænlegra, þars hann hafði beran skallann fyrir. En þó er svo frá sagt, að vopnin hrjóta af upp af skallanum Ásláks, hvort sem þeir færa í höfuð honum sverð eða öxar, og beit ekki á, og hrýtur úr skallanum við höggin. Og nú er þeir sjá að hann gengur fram hart, hvatki er þeir hafa að, og ryðst hann um hið sama: höggur á báðar hendur bæði títt og hart og stórt og fellir margan mann.

Það er nú frá sagt, að Vigfús son Víga-Glúms tekur það fangaráðs, að hann þrífur upp nefsteðja einn mikinn er þar lá fram á þiljum á Járnbarðanum, og þar hafði Vigfús áður hnoðið við sverðshjölt sín er losnað höfðu, og færir síðan steðjann í höfuð Ásláki hólmskalla, svo að þegar sökkur steðjanefið. En við því átti hann eigi gert, og fellur hann niður þegar dauður.

En Vagn gengur með borði öðru og ryðst umb hið harðasta: höggur á tvær hendur og veitir mörgum manni skaða. Og er því fer fram, þá hleypur Þorleifur skúma í móti Vagni og lýstur til hans með kylfunni, og kömur höggið á hjálminn uppi, og springur fyrir þó undir, svo varð höggið mikið, og hallast hann við og stakar nær að honum Þorleifi við. Og jafnt í því er hann stakaði, þá stakk hann sverðinu til hans Þorleifs, og síðan stiklar hann út af Járnbarðanum og kömur niður standandi í skeið sína sjálfs. Og hefir engi verið snarpari í atsókninni en nú var hann og allir hans menn. En svo höfðu þeir Hólmskalli þó ruddan Járnbarðann fyrir Eiríki, að hann lét mennina þangað ganga á af öðrum skipum, þar til er hann var alskipaður, og þótti honum eigi annað hlýða mega.

Og tekst nú enn hin harðasta atlaga með þeim Vagni.

Og því næst sjá þeir Eiríkur að Hákon faðir hans og fylking hans var komin að landi, og verður nú á hvíld nokkur á bardaganum.