Jómsvíkinga saga/35. kafli

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Jómsvíkinga saga höfundur óþekktur
Byggt á útgáfu Ólafs Halldórssonar frá 1969

35. kafli - Frá Vagni[breyta]

Nú er að segja frá þeim Vagni og Birni hinum brezka að þeir ræða um með sér hvað þeir skulu til ráða taka -“og er annað tveggja til,“ segir Vagn, „að vera hér á skipunum þar til er dagar og láta þá taka oss hér höndum, og er sá ókörlegur. En hinn er annar, að leggja til lands og gera þeim það íllt er vér megum, og leita síðan að koma oss undan að forða oss.“

Það ráða þeir nú úr allir saman, að þeir taka siglutréið og fara af skipinu og flytjast þar á, og eru saman átta tigir manna, og flytjast á trjánum í myrkrinu og vildu til landsins flytjast, og komast í sker eitt og þóttust þá komnir á meginland. Og voru þá farnir margir menninir mjög, og þar létu tíu menn líf sitt um náttina, þeir er sárir voru, en sjö tigir lifðu eftir, og voru þó margir raunmjög þrekaðir.

Og verður nú ekki farið lengra.

Eru þar of nóttina.

Það er nú og frá sagt, þá er Sigvaldi hafði undan flýið, að þá tók af élið og eldingar og reiðarþrumur allar og varð eftir það veðrið kyrrt og kalt. Og svo er nú og um nóttina er þeir Vagn eru í skerinu, þar til er dagur er og allt til þess er ljóst er orðið.

Það er sagt þá er skammt er til dags, að þeir menn jarls eru þá enn að, að binda sár sín, og hafa að verið alla nóttina frá því er þeir lögðu að landi, og olli það því, að fjöldi manna var sár orðinn, en þó höfðu þeir nú lokið mjög svo. En nú eftir þetta, þá heyra þeir að strengur gellur útá skipi og flýgur ör af skipi því er Búi hefir á verið og kömur undir hönd honum Guðbrandi frænda jarls, svo að hann þarf eigi fleira, og er hann þegar dauður. Og þykir jarli og öllum þeim þetta vera hinn mesti skaði, og taka þeir að búa of lík hans svo sem þeim sýnist, þvíað þar voru engi önnur efni að.

Þess er og við getið að maður einn stóð hjá tjaldsdurunum. Og þá er Eiríkur gekk inn í tjaldið, þá spyr Eiríkur: „Hví stendur þú hér,“ segir hann, „eða hví ertu þannig yfirlits sem þú sér að bana kominn, eða hvort ertu sár, Þorleifur?“ segir hann.

„Eigi munda eg vita,“ segir hann, „að blóðrefillinn Vagns Ákasonar kæmi við mig í gær líttað, þá er eg laust hann kylfuhöggið.“

Jarl mælti þá: „Illa hefir þinn faðir þá haldið út á landinu,“ segir hann, „ef þú skalt nú deyja.“

Þetta heyrði Einar skálaglamm, er jarl mælti. Þá verður honum Einari vísa á munni:

Það kvað jarl að æri
unnviggs fyrir haf sunnan,
þá er á seima særi
sárelda spjör váru:
öllungis hefir illa,
eybaugs, ef skalt deyja,
vér hyggjum það viggja
valdur, þinn faðir haldið.

Og nú fellur Þorleifur skúma niður dauður eftir þetta.

Og þegar er ljóst var orðið um morguninn, þá fara þeir jarl að kanna skipin og koma á það skip er Búi hafði átt og vildu allra helzt verða varir við hver skotið hefði um nóttina, og þótti þeim sá maður ills verður vera. Og er þeir koma á skipið, þá finna þeir þar einn mann þann er íendur var og litlu meir. En þar var Hávarður höggvandi, er verið hafði fylgdarmaður Búa. En hann var þó sár mjög, svo að fæturnir báðir voru höggnir undan honum fyrir neðan kné.

En þeir Sveinn Hákonarson og Þorkell leira ganga þangað að honum; og er þeir koma þar, þá spurði Hávarður: „Hvernig er, sveinar,“ segir hann, „hvort kom héðan nokkur sending af skipinu í nótt þangað á land til yðvar eða engi?“

Þeir svara: „Kom að vísu,“ segja þeir; „eða hvort hefir þú því valdið?“

„Ekki er þess að dylja,“ segir hann, „að eg senda yður, eða hvort varð nokkurum manni mein að er örin nam staðar?“

Þeir svara: „Bana fékk sá af,“ segja þeir, „er fyrir varð.“

„Vel er þá,“ segir hann, „eða hver varð fyrir maðurinn?“

„Guðbrandur hvíti,“ segja þeir.

„Já,“ segir hann; „þess varð nú eigi auðið er eg vildag helzt. Jarli hafða eg ætlað, en þó skal nú vel yfir láta er nokkur varð fyrir sá er yður þótti skaði að.“

„Eigi er á að líta,“ segir Þorkell leira; „drepum þenna hund sem skjótast,“ - og höggur síðan til hans; og þegar hlaupa til aðrir og bera vopn á hann og saxa hann þar til er hann hefir bana. Spurt höfðu þeir hann áður að nafni, og sagði hann til sín hið sanna.

Og nú fara þeir síðan til lands inn er þeir höfðu þetta að gört og sögðu jarli deili á hvern þeir höfðu drepið; sögðu það eigi meðalfárbauta vera, að það eitt kváðust þeir á finna á hans orðum að eigi mundi skaplyndi um bæta.

Nú eftir þetta sjá þeir hvar menninir eru á skerinu mjög margir saman, og biður jarl nú fara eftir þeim og taka þá höndum görvalla og færa sér, og lézt hann vildu ráða fyrir lífi þeirra. Nú gingu menn jarls á eitt skip og röru út til skersins, og var þar bæði um þá menn er fyrir voru, að fáir voru vel liðfærir, bæði fyrir sára sakir og kulda, enda er ekki frá því sagt að né einn maður verðist. Voru þeir nú allir þar hannteknir af jarlsmönnum og fluttir til lands á fund jarls, og voru þeir þá saman sjö tigir manna. Og eftir þetta lét jarl leiða þá á land upp, Vagn og hans félaga, og eru nú reknar hendur þeirra á bak aftur og bundinn hver hjá öðrum með einum streng og eigi þyrmsamlega. En jarl og hans menn brjóta upp vistir og setjast til matar, og ætlar jarl þá í ærnu tómi um daginn að höggva þessa menn alla, Jómsvíkinga, og þeir höfðu nú höndum á komið.

Og áður þeir settist til matar, þá voru skip þeirra Jómsvíkinga flutt að landi og svo fjárhlutur, og var féið til stanga borið, og skipti Hákon jarl og hans lið fénu með sér görvöllu og svo vopnum þeirra, og þykjast þeir nú alls kostar hafa unninn mikinn sigur, er þeir hafa féið allt, en hönlað þá Jómsvíkinga, en elta suma í brott, en það þó mestur hluti er drepinn er. Og gambra þeir nú hið mesta.

Og nú er þeir jarl eru mettir, þá ganga þeir út úr herbúðunum og fara þangað til er þeir eru bandingjarnir. Og er það sagt að Þorkell leira væri til ætlaður að höggva þá alla.

Þeir hafa áður orð við þá Jómsvíkinga og spyrja hvort þeir væri menn svo harðir sem frá þeim var sagt. En þeir Jómsvíkingar svara þeim öngu um þetta, svoað hér sé frá sagt.