Jómsvíkinga saga/37. kafli

Úr Wikiheimild
Jómsvíkinga saga
37. kafli

Byggt á útgáfu Ólafs Halldórssonar frá 1969

37. kafli[breyta]

Nú er leystur úr strengnum hinn fimmti maður og leiddur þangað; og er hann kömur þar, þá segir Þorkell leira: „Hvern veg er þér um að deyja?“

Hann svarar: „Eigi man eg lög vor Jómsvíkinga ef eg hygg íllt til eða kvíða eg við bana mínum eða mæla eg æðruorð, þvíað eitt sinn skal hver deyja.“

Og nú höggur Þorkell þennan mann.

Og nú ætla þeir Hákon jarl og Þorkell að spyrja hvern þeirra áður þeir sé höggnir, hvern veg þeir hygði til banans, og reyna svo liðið, hvort svo hart væri sem sagt var, og þykir reynt ef engi þeirra mælir æðruorð þegar þeir sjá banann opinn fyrir sér, að svo mörgum mönnum sem þar voru handteknir, þá þótti þeim sem eigi mundi margt slíkt að harðfengi, og mundi þá vera sem sagt var. En í öðru lagi þá þótti þeim gaman að heyra á orð þeirra, hvort sem upp kæmi.

Og nú er hinn sjötti maður tekinn úr strenginum og snúinn vöndur í hár honum og búinn til höggs. Og er svo var komið, þá spyr Þorkell hversu gott hann hyggi til dauða. Hann svarar: „Mér þykir gott að deyja,“ segir hann, „við orðstír góðan; en þér er skömm að lífi þínu, þvíað þú munt lifa við skömm og klæki meðan þú lifir.“

Eigi líka Þorkatli orð þessa manns, og lætur honum skammt til þess að hann höggur höfuð af honum, og er honum eigi forvitni á hans tali lengra.

Síðan er leiddur til höggs hinn sjöundi maður, og spyr Þorkell hann hversu gott hann hygði til dauðans. „Eg hygg allgott,“ sagði hann, „og þyki mér vel til bera. En það vilda eg að þú veittir mér, að þú hyggir sem skjótast af mér höfuðið, en eg helda á einum tigilknífi, þvíað vér Jómsvíkingar höfum oft rætt um það, hvort maður vissi nokkuð þá er af færi höfuðið, ef maður væri sem skjótast högginn, og nú skal það til marks, að eg mun fram vísa knífinum ef eg veit nokkuð frá mér, ellegar mun hann falla þegar niður úr hendi mér. En þú lát það eigi að skorta, er þú skalt að vinna, að þú högg höfuðið svo skjótt af mér, að það megi reynt verða fyrir þá sök.“

Og nú höggur Þorkell svo að þegar fauk höfuðið af bolnum, en knífurinn féll á jörð niður, sem líklegt var.

Síðan var þangað leiddur hinn áttundi maður, og spyr Þorkell hins sama.

„Gott hygg eg til,“ sagði hann.

Og nú snúa þeir vönd í hár honum. Og er honum þótti sem skammt mundi að bíða höggsins, þá mælti hann: „Hrútur,“ sagði hann.

Þorkell stöðvar höggið og spurði hví hann mælti slíkt.

„Því,“ segir hann, „að þó mun eigi ofskipað með ánum, þeim sem þér nefnduð í gær jarlsmenn, þá er þér fenguð sárin.“

„Manna armastur,“ sagði Þorkell, „slíkt mælandi,“ - og höggur hann þegar, og lætur hann líf sitt.

Nú var leystur hinn níundi maður úr strengnum, og spyr Þorkell: „Hvað er sannast, félagi,“ segir hann; „hversu gott hyggur þú til að deyja?“

„Gott hygg eg til að deyja sem allir vorir félagar, þeir sem hér láta nú líf sitt. En það vilda eg að þú veittir mér að eg sé eigi þannveg leiddur til höggs sem sauður, heldur vil eg sitja fyrir, og vil eg að þú gangir að mér framan og höggir í andlit mér, og hygg að vandlega hvort eg blöskra nokkuð við, þvíað vér höfum oft um rætt, Jómsvíkingar, hvort maður mundi nokkuð bregða sér við, ef höggið væri í andlit honum.“

Þorkell gerir sem hann bað. Hann situr nú fyrir, en Þorkell höggur framan í andlit honum. Svo er sagt að þeir sæi hann ekki blöskra við, nema þá er dauði færðist í augu honum, þá dregur saman augun, sem oft kann verða þá er menn andast.

Og eftir þetta var leystur hinn tíundi maður úr strengnum og til höggs leiddur, og spyr Þorkell enn hins sama.

„Til þess hygg eg einkar gott,“ segir hann; „en það vilda eg að þú veittir mér að þú látir dvöl á að höggva mig, að eg nái áður að bjarga brókum mínum.“

„Það skal veita þér,“ segir Þorkell; „en þó sé eg þér ekki það skipta, hvort þú gerir þetta, en þó skaltu ráða.“

Sjá maður var vænn yfirlits og mikill vexti.

Og er hann hafði það gjört sem hann vildi, þá tekur hann til orða, og hefir eigi upp kippt brókunum og hélt á félaga sínum: „Það er þó satt,“ segir hann, „að margt verður annan veg en maðurinn ætlar fyrir sér, þvíað það hafða eg ætlað að þessi félagi minn skyldi nær koma Þóru Skagadóttur, konu jarls, og skyldi hún hann fóstra og í rekkju hafa hjá sér,“ - og hristir hann við nokkuð svo er hann mælti þetta, og kippir síðan upp brókunum.

En jarl tekur til orða: „Höggvi þenna sem skjótast,“ segir hann, „þvíað sjá maður hefir lengi íllt haft í hug sér, og hefir nú sjálfur bert gjört.“

Og nú höggur Þorkell af þessum manni höfuð, og lauk svo hans æfi.

Þessu næst var maðr leiddur úr strengnum og til höggs. Hann var ungur maður og hærður vel, svo að það lá á herðum honum niðri og gult sem silki. Þorkell spyr enn hvern veg hann hygði til að láta lífið. En hann svarar: „Lifað hefi eg hið fegursta,“ segir hann, „og þeir hafa nú látið lífið fyrir skömmu, að mér þykir lítið í veitt að lifa lengur, og eiga þó eigi meira kost en nú á eg. En þó vil eg að þú veitir mér það, að eigi leiði þrælar mig til höggs, og vilda eg að sá nokkur leiddi mig er eigi væri verri maður en þú, og hygg þó að, að óvandfenginn sé þér í mót,“ segir hann; „það er og annað, að eg er svo vandur að hári mínu að eg vil að sá maður haldi hárinu fram af höfðinu meðan eg er högginn og hnykki skjótt höfðinu af bolnum, svo að hárið verði eigi blóðugt, en þú högg af mér höfuðið svo skjótt að þetta megi svo verða sem eg hefi til ætlað.“

Og það er sagt að einn hirðmaður yrði til, jarls, að halda honum, og þykir eigi þurfa að snúa vönd í hár honum er hárið var svo mikið, og tekur hann hirðmaðurinn og vefur um hönd sér og heldur svo báðum höndum undir höggið, en Þorkell reiðir að sverðið og ætlar að veita honum það tilræði er hann bað, að höggva hann hart og skjótt, og höggur hann til. En þessi hinn ungi maður, er hann heyrir hvininn af högginu, þá hnykkir hann hart höfðinu og ber þar þannig til, að sá hlýtur höggið er honum hélt, og höggur Þorkell af honum hirðmanninum hendurnar báðar í olbogabótum. En hann sprettur upp hinn ungi maður og bregður á gamanmál og mælti: „Hver á sveina,“ segir hann. „hendur í hári mér?“

Hákon jarl tekur þá til orða og mælti: „Stórófarar gerast nú,“ segir hann, „of menn þessa er eftir eru í strengnum, og taki sem skjótast og drepi, og hefir hann þó miklu slysi á oss komið; og er einsætt að þeir sé drepnir allir sem skjótast er eftir eru, þvíað miklu eru menn þessi óðindælli“ en vér fáim við þeim séð, og hafa eigi ofsögur verið frá sagðar þeirra garpskap og herði.“

Eiríkur tók nú til orða og svarar föður sínum: „Vita vilju vér nú, faðir,“ segir hann, „hverir menninir sé, áður drepnir sé allir, - eða hvað heitir þú hinn ungi maður?“ segir Eiríkur.

„Sveinn heiti eg að nafni,“ segir hann.

„Hvers son ertu, Sveinn,“ segir Eiríkur, „eða hvert er kynferði þitt?“

„Búi digri hét faðir minn,“ segir hann, „og var Vésetason úr Borgundarhólmi, og em eg danskur að kyni“

„Hversu gamall maður ertu?“ segir Eiríkur.

„Ef eg líð yfir þenna veturinn,“ segir hann, „þá em eg átján vetra gamall að aldri.“

„En þú skalt og yfir líða veturinn,“ segir Eirikur, „ef vér megum ráða, og skal þig eigi drepa.“

Og tekur Eiríkur hann nú í frið og lætur hann nú vera í sveit með sér og sínum mönnum.

Og er Hákon jarl sér þetta, þá tekur hann til orða og mælti: „Eigi veit eg nú,“ segir hann, „hversu þú ætlar til ef þú vilt þenna manninn undan þiggja er oss hefir svo mikla skömm og háðung görva, sem þessi hinn ungi maður er vér höfum verst af hlotið. En þó kann eg eigi það sjá, að eg muna sækja eftir manninum í hendur þér, og muntu nú ráða verða að sinni.“

Og nú verður svo búið að vera sem Eiríkur vill.

Og nú mælti Hákon jarl við Þorkel leiru: „Högg enn mennina sýslega,“ segir hann.

Eiríkur svarar: „Eigi skal nú höggva mennina,“ segir hann, „fyrr en eg hefi áður haft orð við þá, og vil eg vita hver hvergi sé.“