Jómsvíkinga saga/39. kafli

Úr Wikiheimild

Byggt á útgáfu Ólafs Halldórssonar frá 1969

39. kafli[breyta]

Nú er að segja frá Sigvalda, að þá er hann flýði úr bardaganum nam hann eigi fyrr staðar en hann kom heim í Danmörk, og var Ástríður kona hans þar fyrir, er þeir koma heim, og gjörði hún veizlu í mót honum.

Þeir segja tíðendin frá bardaganum og frá förinni allri saman, síðan er þeir Jómsvíkingar fóru heiman úr Danmörku, og þótti mönnum það mikil skemmtan að heyra, er þeir sögðu frá þeim tíðendum. Og þess er við getið, að Ástríður vill fagna sem bezt Sigvalda í hvívetna og sýna það að hún er fegin orðin hans heimkvámu. Hún lætur gjöra honum laug; biður hann síðan fara í laugina - „og veit eg,“ segir Ástríður, „að leið svo langri sem er úr Noregi, þá mun mál að fægja sárin þau er þér fenguð í bardaganum.“

Síðan fer „Sigvaldi í laugina, og hlítir Ástríður ekki öðrum konum að því að þjóna honum í lauginni, og mælti síðan: „Verið get eg hafa nökkura í bardaganum í liði Jómsvíkinga, er þaðan munu hafa borið raufóttara belginn en svo sem þú hefir borið, þvíað mér þykir sjá til þess bezt fallinn að varðveita í hveitimjöl.“

Sigvaldi svarar: „Það mætti verða minnar æfi, að þú ættir eigi slíkum sigri að hrósa,“ sagði hann, „og hygg þú að því, að þér líki þá betur.“

Og þá er ekki sagt frá þeirra viðurtali lengra að sinni.

Sigvaldi réð fyrir Sjólöndum nökkura stund síðan og þótti vera hinn vitrasti maður og var eigi þar allur sem hann var sénn, og eru mikil tíðendi frá honum sögð í öðrum sögum. En Hákon jarl réð skamma stund Noregi síðan, og þótti hann verða hinn ágætasti allskostar af þessu öllu saman, og svo synir hans.

Ekki er hér frá því sagt, hvað Sveinn Búason lagði fyrir sig, hvort hann var með Eiríki eða gjörði hann annað af sér, en Sigurður kápa bróðir Búa fór til Danmerkur og tók við föðurleifð sinni eftir Véseta í Borgundarhólmi og bjó þar langa æfi, og þótti vera hinn bezti drengur, og er margt manna frá honum komið og þeim Tófu, og voru samfarar þeirra góðar síðan.

Þorkell hinn hávi bróðir Sigvalda þótti hinn vitrasti maður, sem reyndist síðan í mörgum hlutum. En Skjaldmeyjar-Einar fór til Íslands og drukknaði á Breiðafirði, og heita þar af því Skáleyjar, að þar rak skálirnar á land, þær sem jarl gaf honum. En Þórður örvahönd fór heim í Dýrafjörð til Þorkels föður síns í Alviðru, og verður hér svo sagt að þeir Þorleifur skúma og Þórður örvahönd hafi bræður verið, og bjó Þórður í Alviðru eftir föður sinn, og er margt manna frá honum komið í Fjörðum vestur, og sögðu þeir Einar glöggvast frá þessum tíðendum út til Íslands.

En það er sögn manna síðan að Búi hafi að ormi orðið og lagizt á gullkistur sínar; en vér hyggjum það til þess haft vera að þar hafi ormurinn sézt á Hjörungavogi, og kann vera að nökkur ill vættur hafi lagizt á féð og sýnzt þar síðan. En eigi kunnum vér að segja hvort heldur er. Má og vera að hvorki sé satt, þvíað marga vega má sýnast.