Jómsvíkinga saga/7. kafli

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Jómsvíkinga saga höfundur óþekktur
Byggt á útgáfu Ólafs Halldórssonar frá 1969

7. kafli[breyta]

Nú er fyrst að segja frá keisaranum og þeim hinum mikla her er hann hafði, að þeir ganga á land upp, þá er þeir koma við Danmörk, og sjá Danavirki og þykir eigi vera auðvelligt að sækja, ef varnarmenn eru fyrir, og hverfa frá og ofan til skipa sinna og ganga á skip út.

Og í því bili finnast þeir Haraldur konungur og Ótta keisari, og slær þar þegar í bardaga. Þeir berjast á skipum, og fellur margt manna af hvorumtveggja, og fá hvorigir sigrað aðra með öllu, og skilja við það. Síðan leggur keisari skipaher sinn þar sem heitir Slésdyr, og er þar fyrir Hákon jarl með sitt lið. Þar tekst og þegar atlaga með þeim keisara og jarli, og verður hið harðasta él, og fellur þá keisara þyngra bardaginn, og lætur hann þar margt lið. Og svo lýkur, að hann flýr undan með lið sitt og þykir fast fyrir vera og kemur það í hug, að hann mun verða að leita sér ráðs um, hvernig helzt má að orka.

Svo er sagt, þá er keisari leggur skip sín til lægis, að þeir mæta skipaliði nokkuru, það voru fimm skip, og voru öll langskip stór. Keisari spurði hvað sá maður héti er forráð hafði skipa þeirra og liðs. Sá svarar og læzt Óli heita að nafni. Þá spurði keisari, hvort hann væri kristinn maður eða eigi. Óli svaraði og lézt við kristni tekið hafa vestur á Írlandi, og býður hann sig til liðveizlu við keisara, ef hann þykist þurfa meira liðsafla en áður hefir hann. Keisari kveðst það gjarna vilja, og kveðst kunna honum mikla þökk fyrir - „og lízt mér gæfusamlega á þig,“ segir hann.

Óli réðst í lið með honum og hefir þrjú hundruð manna, og er það lið hið hvatlegsta, og ber þó sá af öllum, er fyrir liðinu réð.

Nú eftir þetta leita þeir ráðs, keisari og menn hans, fyrir því að það vandræði var komið að höndum þeim, að þeir voru farnir að vistum, en hitt í öðru lagi, að allur fénaður sá er þeim megin Danavirkis var, sem þeir voru staddir, var á braut rekinn vandlega allur og fengu þeir því ekki náð, og sýndist hyggnum mönnum að tvö vandræði væri á: annað hvort að hverfa frá við svo búið, eða drepa reiðskjóta sína til matar, og sýndizt mönnum hvottveggi kosturinn illur þeirra.

Nú fær keisara þetta mikillar áhyggju, og orkar á Óla til atkvæðis og úrráða um þetta mál og bað hann fá það nokkuð ráð er gegndi.

Óli svarar og kveðst hafa á ráðagerðum sínum metnað og vildi það hafa láta að nokkuru er hann legði til, og yrði allir á eitt sáttir, eða ella kveðst hann eigi mundu eitt orð til leggja.

Þar kemur nú máli, að allir gerðu að því róm að hafa það ráð er Óli legði til. Þá mælti hann:

„Það er þá ráð mitt,“ segir hann, „að vér gangim allir í einn stað er á Krist trúum og heitim á allsvaldanda guð, skapara allra hluta, sex dægra föstu, að hann gefi oss sigur, og vér þurfim eigi að drepa hross til matar oss. Þá vil eg það ráð annað til gefa,“ segir hann, „að vér farim í dag á merkur og skóga, þá er oss eru nálægstir, og skal hver maður höggva sér byrði af þeim viði er oss þykir von að eldnæmstur sé, og skulu vér þann við allan bera að virkinu og sjám þá enn síðan hvað í gerist.“

Þetta ráð sýnist þeim vænlegt, er Óli hefir til lagt, og fara nú þannig með sem hann gaf ráð til.

Þar var þannig til farið, er virkið var, að díki mikið var grafið þeim megin sem þeir voru. Það var tíu faðma breitt, en níu faðma djúpt. En nokkuru mjórra þar er kastalar stóðu yfir uppi. En þeir voru svo settir, að kastali stóð yfir hverju hundraði faðma á virkinu uppi.

Annan dag eftir er þeir höfðu viðinn dregið að virkinu, þá höfðust þeir það að, að þeir gerðu brúar stórar yfir díkið, svo að brú var gör gagnvert hverjum kastala, og gerðu stokka undir, svo að allt tók sá umbúnaður að virkinu. Og þann sama dag tóku þeir öll vatnkeröld þau er þeir höfðu og drápu úr botninn annan og létu síðan koma þar í innan lokarspánu þurra og aðra spánu þá er þeir telgdu til þess er fullir voru verplarnir af spánunum. Síðan láta þeir koma eld í spánuna, og eftir það skjóta þeir aftur botnunum í verplana og láta opna ofan, til þess að þar lysti í vindi.

Nú og í annan stað, þá taka þeir og slá eldi í viðuna þá er þeir höfðu dregna að virkinu. En veðri var þannig farið, að á var sunnanvindur hvass og þurrt veður og stóð að virkinu.

Nú taka þeir verplana og skjóta þeim út á díkið, og síðan lýstur vindinum ofan í holið verplanna og keyrir út að virkinu og svo innundir virkið. En þetta var um kveldið, er þessum umbúnaði var lokið.

Nú er svo frá sagt, þá er nátta tók, að eldurinn tók að leika vatnkeröldin og viðinn, og því næst laust logunum upp í kastalana og því næst í virkið, og síðan brann hvað að öðru, þvíað virkið var mest af viðum gert. Svo lauk máli, að á þeirri nátt brann upp allt Danavirki með köstulum og sá engi merki eftir né örmol, og unnu það vatnkeröldin er eldinn báru að virkinu. En þá er morgna tók, þá gerði á mikið regn, svo að menn mundu trautt slíkt vatnfall úr himni komið hafa og slökkti þann eld vandlega, svo að menn máttu þá þegar fara yfir usla þann hinn mikla. Og ef það slokknaði eigi við regnið, þá var eigi vænt að þar mundi mega yfir komast bráðfengis.

Og nú er þeir Haraldur konungur og Hákon jarl sá á þetta allt jafnsaman, þá slær ótta nokkurum í skap þeim og síðan flýja þeir undan til skipa sinna. En þeir keisari gingu yfir brúarnar, þar er þeir höfðu gert yfir díkið, þvíað þaðan hafði eldinn frá lagðan, þá er virkið brann, og ganga þeir nú yfir þann usla, og var nú allur kaldur orðinn og slokkinn, og höfðu þeir nú fastað fjögur dægur til liðs sér við almáttkan guð.

Og á hinu fimmta dægri sækja þeir þangað frá virkinu, sem þeir höfðu fyrir verið, Danakonungur og Hákon jarl. Og þá er þeir komu þar, þá skorti þá eigi kvikfé, og fingu þeir sér nú ærnar vistir, þvíað þangað hafði rekið verið féið til skjóls undan herinum þeirra keisara, og hafa þeir nú ærna gnótt vista, og spara þeir ekki mjög fé Dana og eru góðir blóðöxar. Nú lofa þeir guð fyrir þenna sigur hinn fagra, og þótti keisara vel hafa dugað ráð Óla, og spyr nú eftir, hvaðan Óli væri að kynferði, eða hverju landi hann væri.

Óli svarar: „Ekki mun eg lengur dyljast fyrir þér,“ segir hann. „Eg heiti Ólafur, og em eg kynjaður úr Noregi, en Tryggvi hét faðir minn.“

Það er nú frá sagt, að þeir Ótta keisari og Ólafur sóttu eftir þeim Haraldi konungi og Hákoni jarli. Og allir þeir saman áttu þrjá bardaga á meginlandi, og varð þar mikið mannfall, og flýðu þeir undan loks, þeir Haraldur konungur og Hákon jarl. En þeir keisari og Ólafur sóttu eftir um landið. Og hvar sem þeir fóru, þá var það boðið þeim mönnum öllum, er þeir fingu höndum tekið, að annað hvort skyldi, að þar mundi hver þegar vera drepinn, eða ella skyldi taka trú og skírn, og kuru margir það er betur gegndi, að taka trú og skírn. En þeir menn et eigi vildu undir ganga, þá létu búkarlar eigi mjög rjúka á þeim tólf mánuðum hinum næstum, þvíað þeir keisari brenndu byggðina og þorpin og eyddu svo fyrir þeim öllum, er eigi vildu trúna taka, en drepa þá jafnan sjálfa.

Ótta keisari og Ólafur Tryggvason vinna nú mikinn sigur og fagran á þessum tólf mánuðum, þvíað nú heldur ekki við þeim. En þeir flýja undan ávallt, Haraldur konungar og Hákon jarl, og þykjast nú finna það og sjá, að minni og minni er ávallt þeirra afli, svo sem meiri hlutur og meiri er kristnaður í landinu.

Og nú hafa þeir Haraldur konungur og Hákon jarl stefnu og ráðagerð með sér, hvað til skyldi taka, og þykir nú taka að þröngva að sér mjög: hafa flýið í braut frá eignum sínum og skipum og fjárhlutum og megu nú sjá það, að þeir fá eigi náð skipunum, þvíað þeir keisari hafa þar yfirsókn, og sýnist nú rállegast að svo vöxnu máli sem var, að senda menn á fund Óttu keisara og Ólafs Tryggvasonar.

Nú eru menn sendir á fund keisara og bera upp örendi Danakonungs og Hákonar jarls. Keisari tekur því vel og lætur þeim kost griða ef þeir vilja trú taka, og sendir þeim þau orð í móti, að þeir skyldu þing eiga allir saman, og fara þeir nú aftur, sendimenn Haralds konungs og Hákonar jarls, og segja þeim svo búið.

Eftir það koma þeir nú allir á þing, og hefir það fjölmennst þing verið í Danakonungs veldi á þeirra dögum. Þá gengur á þingið byskup sá er var með keisara, er Poppa er nefndur, og telur þar trú fyrir þeim á þinginu, vel og orðfærlega, og talar hann langt örendi og snjallt.

Haraldur konungur hefir orð fyrir þeim Hákoni og svarar þá er hann hafði heyrða töluna: „Ekki er til þess að ætla,“ segir hann, „að eg muna skipast við orð ein saman, nema það fylgi, að eg sjá jartegnir nokkurar, að þessum sið fylgir meiri máttar, er þér boðið, en þeirri trú er vér höfum áður.“ En þetta var þó ráð Hákonar jarls, þótt konungur bæri upp, þvíað hann vildi hotvetna annars heldur en ganga undir trúna.

Byskup svarar þessu máli á þessa leið: „Eigi skal það að skorta,“ segir hann, „að reyna skal kraft þessar trúarinnar. Nú skal taka járn glóanda, en eg mun áður syngja messu og færa fórn almáttkum guði, en síðan mun eg ganga yfir glóanda járn, í trausti heilagrar þrenningar, níu fet, og ef guð hlífir mér við bruna, svo að minn líkami sé alheill og óbrunninn, þá skulu þér allir játast undir rétta trú.“

Og nú játa þeir því Haraldur konungur og Hákon jarl og allir þeirra menn, ef hann gingi yfir járn glóanda, svo að hann brynni eigi, að þá mundi þeir verða við trúnni að taka.

Nú fer þetta fram, að byskup syngur messu, og eftir messuna, þá gengur hann til þessar raunar, treystur þá með holdi og blóði almáttigs guðs, og var í öllum byskups skrúða, þá er hann trað járnin. En guð hlífði honum svo að hvergi var brunaflekkur á hans líkama, og hvergi var á runnið á klæði hans.

En er Danakonungur sér þessi stórtíðendi, þá tekur hann þegar trú og skírn og allir hans menn, og þykir konunginum mikils um vert þessa jartegn; og nú er skírður allur Danaher í þessi rennu.

Hákon jarl er alltrauður undir trúna að ganga og þykir vera harður á annað borð; ræður þó það af loksins, að hann er skírður, og beiðir sér síðan fararleyfis og vill hvata heim. En því máli kömur svo, að Hákon verður því að heita keisara, að hann skyldi kristnað fá Noreg ef hann mætti, eða flýja frá ríki sínu ella.

Og eftir það fer Hákon í braut og þangað sem skip hans voru, og fer síðan þar til er hann kömur heim í Noreg.

Nú tekst síðan vinfengi mikið með þeim Haraldi konungi og Óttu keisara, og fara nú báðir til einnar veizlu, þeirrar er konungur veitir. Ólafur fer og þangað með þeim. Og áður en þeir skiljast, Ótta keisari og Haraldur konungur, þá heitur Danakonungur því, að allir hans menn skyldu trú taka, þeir er hann mætti orðum við koma, og það endi hann. En Ótta keisari fer heim til Saxlands til ríkis síns og bauð Ólafi með sér að fara. En Ólafur lézt fús að fara í austurveg, og svo gerði hann, og skildust þeir þar, Ótta keisari og Ólafur, í Danmörku, og vorust góðir vinir jafnan síðan.

Nú er að segja frá því er gerðist í ferð Hákonar jarls, þá er hann fór heim til Noregs, að hann kom við Gautland, og þegar er hann kömur þar, þá herjar hann og gerir upprásir. En sendir aftur presta alla og kennimenn þá er keisari hafði fingið honum til föruneytis og að skíra menn í Noregi. Nú vill Hákon ekki að þeir fari lengur með honum.

Og nú er hann herjar, þá spyr hann til hofs eins, þess er mest var í Gautlandi meðan þar var heiðið. Í því hofi var hundrað goða, og var helgað Þór hofið. Hákon tekur fé það allt er þar var inni, en þeir menn er varðveittu hofið og bólstaðinn flýðu undan, en sumir voru drepnir. En Hákon fór aftur til skipa sinna með féið og brennir og bælir allt það er fyrir honum varð á þeirri leið, og hafði fingið ógrynni fjár er hann kom til skipa.

Og á þessu méli, er Hákon svarfaðist þar um á Gautlandi, þá spyr Óttar jarl er réð fyrir miklum hluta Gautlands, og bregður hann við skjótt, og dregur hann að allan landher í móti Hákoni jarli og fer með mikið lið að honum, og lýstur þar þegar í bardaga með þeim, og verður Hákon borinn ofurliði af landher þeim er að dreif, og lauk svo að hann flýr undan með lið sitt og fer til Noregs.

Eftir það kveður Óttar jarl þings og mælti þeim málum á þinginu, að Hákon jarl skyldi heita vargur í véum, fyrir því að hann kvað engi mann verri verk unnið hafa, er Hákon hafði brotið hið æðsta hof í Gautlandi og unnið margt annað illt, og öngvir menn vissu dæmi til slíks, og hvargi er hann fór eða kom, þá skyldi hann þetta nafn hafa.

Og er þetta er tíðenda, þá spyrja þeir jarlarnir Urguþrjótur og Brimiskjarr, er fyrr var getið í þessu máli, til fara Hákonar jarls, og svo hvað hann hafðist að, og þykir hann fara lítt friðsamlega, og vilja þeir eigi bíða hans þaðan. Og flýja þeir nú úr landi með öll skip sín og voru öll hlaðin af mönnum, og vildu þeir gjarna eigi finna Hákon jarl.

En þá er jarl kom í land austan í Víkina og spurði þegar hvað þeir jarlarnir höfðu að sýst meðan, að þeir höfðu kristnað alla Víkina norður til Líðandisness. Og verður jarl við æfur og reiður mjög, og sendir þegar orð um alla Víkina, að öngum skyldi hlýða að halda á þessum sið, svo að eigi mundi hver stórvíti fyrir taka af honum.

Og er þetta spurðist, þá flýði hver undan er kristni vildi halda, en sumir gingu aftur til heiðni og villu þeirrar er þeir höfðu áður, fyrir sakir ofríki jarlsins. En jarlinn Hákon kastar þá trúnni og skírninni og gerðist þá hinn mesti guðníðingur og blótmaður, svo að aldregi hafði hann meir blótað en þá.

Og situr Hákon nú of kyrrt í landinu og ræður nú einn fyrir öllum Noregi og geldur aldregi síðan skatta Haraldi konungi Gormssyni, og er mjög í rénan þeirra vingan.

Haraldur konungur býður nú út leiðangri af allri Danmörku og fer nú til Noregs með óflýjanda her á hendur Hákoni jarli. Og þá er hann var kominn norður um Líðandisnes í það ríki er undan var horfið hans skattgjöfum. Og síðan herjar hann og lætur geisa eld og járn yfir land hvar sem hann fór og gerir aleyðu í Noregi í Sogni allt með sjó norður til Staðar, nema fimm bæi í Læradal. Og síðan fregn hann samnaðinn, hvar Þrændir í Noregi, Naumdælir, Raumdælir, Háleygir, að hver er vígur maður er, þá er kominn í einn stað með Hákoni jarli til varnar, og hefir hann svo mikinn liðsafla, að ófært er að berjast í móti með útlendum her.

Nú ræðst Haraldur konungur um við sína spekimenn; konungurinn lá þá í Sólundum og heitaðist að fara út til Íslands að herja og hefna níðs þess er allir landsmenn höfðu gert um konunginn Harald fyrir rán það er Byrgir bryti hafði tekið fé íslenzkra manna að ólögum, en konungurinn vildi eigi rétta ránið, þá er hann var þess beðinn.

Á þessa lund var sett níðið:

Þá er sparn á mó mörnar
morðkunnur Haraldur sunnan,
varð þá Vinda myrðir
vax eitt í ham faxa;
en bergstofu Byrgir
böndum rækur í landi,
það sá öld, í jöldu
óríkur fyrir líki.

En Eyjólfur Valgerðarson orti vísu þessa, þá er húskarl hans hafði selda öxi sína og tekið í móti grán feld einn, og þá hafði spurzt út hingað ósættin Haralds konungs.

Og nú kvað Eyjólfur vísu þessa:

Selit maður vopn við verði;
verði dynur ef má sverða;
verðum Hrópts að herða
hljóð, eigum slög rjóða.
Vér skulum Gorms að gömlu
Gandvíkur þoku landi,
hörð er von að verði
vopnhríð, sonar bíða.

Haraldur konungur tók það ráð sem von var, er margir spakir menn véltu umb, sem bezt gegndi: vendi nú aftur suður til Danmerkur, og heldur hann nú ríki sínu til dauðadags með fullum veg og sóma. En Hákon jarl sköttum og Noregi.