Jómsvíkinga saga/9. kafli

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Jómsvíkinga saga höfundur óþekktur
Byggt á útgáfu Ólafs Halldórssonar frá 1969

9. kafli[breyta]

En nú er þessi hinn ungi maður er svo aldurs kominn, þá vill nú fóstri hans Pálnatóki senda hann á fund föður síns Haralds konungs, og gerir hann með honum tuttugu menn frálega og ræður honum það, að hann skyli ganga inn í höllina fyrir konung föður sinn og segjast vera hans son, hvort er honum þætti betur eða verr, og beiða hann þess, að hann gingi við frændsemi við hann.

Svo gerir hann nú sem við hann er mælt, og er ekki sagt frá förum hans fyrr en hann kömur í höllina fyrir Harald konung föður sinn og mælir þeim orðum öllum er fyrir hann voru lögð. Og er því var lokið, þá annsvarar konungurinn:

„Það þykjumst eg finna og skilja á orðtaki þínu,“ segir hann, „að eigi mun logið vera til móðernis þíns, af því að mér sýnist attú munir vera hinn mesti skiptingur og afglapi og eigi ólíkur Saumæsu móður þinni.“

Þá svarar Sveinn: „Ef þú vilt eigi ganga við frændsimi við mig, þá vil eg þess beiða af yður, að ér fáið oss þrjú skip úr landi og lið með, og er það eigi ofmikið tillag við oss, fyrir því að eg veit víst attú ert faðir minn. En Pálnatóki fóstri minn mun að vísu fá mér jafnmikið lið, og svo skip eigi smæri en þú fær oss.“

Konungur svarar: „Þess væntir mig attú sér vel þessu á braut kaupandi, sem nú mælir þú til, og komir þú aldri síðan mér í augsýn.“

Það er nú í frá sagt, að Haraldur konungur fær Sveini þrjú skip og hundrað manna, og hvorttveggja lítt vandað, skipin og liðið. Og eftir það ræðst Sveinn í braut þaðan og fer þar til er hann kömur heim til fundar við fóstra sinn Pálnatóka og segir honum allt út, hversu orð fóru með þeim feðgum. Pálnatóki svarar:

„Slíks var þar að von,“ segir hann, „og eigi betra.“

Síðan fær Pálnatóki Sveini góð skip þrjú og hundrað manna, og var það lið mjög vandað. Og síðan gefur hann ráð til hversu hann skal hátta; og áður en þeir skiljast, mælti Pálnatóki við hann:

„Nú muntu freista að leggjast í hernað í sumar með lið þetta er nú hefir þú fingið. En það ráð vil eg til gefa með þér, attú farir ekki lengra fyrst í braut en svo attú herja hér í Danmörku á ríki föður þíns, það er honum er nökkvat í fjarska, og vinn þar slíkt allt illt sem þú mátt: far herskildi yfir og brenn allt og bæl svo sem þú mátt við komast og lát því ganga í allt sumar, en kom til mín að vetri og haf þá hérvist og bæli og lið þitt.“

Og síðan skiljast þeir fóstrar, og fer Sveinn í braut með lið sitt og fer jafnt með öllu sem honum var ráðið af hendi fóstra síns, og gerir hann mikið illvirki á ríki konungsins föður síns, og gerist eigi góður kurr í búandkörlum þeim er fyrir verða hans ófriði og ágangi, þvíað hvorki sparir hann við þá eld né járn.

Nú spyrst þetta brátt og kömur til eyrna konunginum, og þykir honum því illa varið er hann hefir fingið honum afla til slíks ófriðar og ágangs, og kveðst ætla að honum mundi bregða í móðurkyn sitt um þessi endimi er hann tók til.

Nú líður af sumar þetta. Og er að vetri kömur, þá fer Sveinn heimleiðis, þar til er hann kömur á Fjón til Pálnatóka fóstra síns, og hefir fingið mikils fjár um sumarið.

Og áður en þeir komust heim, þá fingu þeir storm mikinn og ofviðri, og braut öll skipin þau er faðir hans hafði fengið honum, og lið það allt, er þar hafði á verið, týndist. En síðan sigldi Sveinn heim á Fjón sem honum var sagt, og var hann þar of veturinn í góðu yfirlæti og lið hans, það er eftir var.