Landnámabók/22. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
22. kafli

Hér hefur upp landnám í Vestfirðingafjórðungi, er margt stórmenni hefir byggðan.

Maður hét Kalman, suðureyskur að ætt; hann fór til Íslands og kom í Hvalfjörð og sat við Kalmansá. Þar drukknuðu synir hans tveir á Hvalfirði. En síðan nam hann land fyrir vestan Hvítá á milli og Fljóta, Kalmanstungu alla, og svo allt austur undir jökla sem grös eru vaxin, og bjó í Kalmanstungu. Hann drukknaði í Hvítá, er hann hafði farið suður í hraun að hitta friðlu sína, og er haugur hans á Hvítárbakka fyrir sunnan. Hans son var Sturla goði, er bjó á Sturlustöðum uppi undir Tungufelli upp frá Skáldskelmisdal, en síðan bjó hann í Kalmanstungu.

Hans son var Bjarni, er deildi við Hrólf hinn yngra og sonu hans um Tunguna litlu; þá hét Bjarni að taka kristni; eftir það braut Hvítá út farveg þann, er nú fellur hún. Þá eignaðist Bjarni Tunguna litlu og ofan um Grindur og Sölmundarhöfða.

Kýlan hét bróðir Kalmans; hann bjó fyrir neðan Kollshamar. Hans son var Kári, er deildi við Karla Konálsson á Karlastöðum, leysingja Hrólfs úr Geitlandi, um oxa, og reyndist svo, að Karli átti. Síðan eggjaði Kári þræl sinn til að drepa Karla. Þrællinn lét sem ær væri og hljóp suður um hraun. Karli sat á þreskildi; þrællinn hjó hann banahögg. Síðan drap Kári þrælinn. Þjóðólfur, son Karla, drap Kýlan Kárason í Kýlanshólmum. Síðan brenndi Þjóðólfur Kára inni, þar sem nú heitir á Brennu.

Bjarni Sturluson tók skírn og bjó á Bjarnastöðum í Tungunni litlu og lét þar gera kirkju.

Þrándur nefja hét maður ágætur, faðir Þorsteins, er átti Lofthænu, dóttur Arinbjarnar hersis úr Fjörðum. Systir Lofthænu var Arnþrúður, er átti Þórir hersir Hróaldsson; var þeirra son Arinbjörn hersir. Móðir þeirra Arnþrúðar var Ástríður slækidrengur, dóttir Braga skálds og Lofthænu, dóttur Erps lútanda. Sonur Þorsteins og Lofthænu var Hrosskell, er átti Jóreiði Ölvisdóttur sonar Möttuls Finnakonungs; Hallkell hét son þeirra.

Hrosskell fór til Íslands og kom í Grunnafjörð; hann bjó fyrst á Akranesi; þá ömuðust þeir Ketill bræður við hann. Síðan nam hann Hvítársíðu milli Kjarrár og Fljóta; hann bjó á Hallkelsstöðum og Hallkell son hans eftir hann, og átti hann Þuríði dyllu, dóttur Gunnlaugs úr Þverárhlíð og Vélaugar Örlygsdóttur frá Esjubergi.

Hrosskell gaf land Þorvarði, föður Smiðkels, föður þeirra Þórarins og Auðunar, er réðu fyrir Hellismönnum; hann bjó á Þorvarðsstöðum og átti Fljótsdal allan upp með Fljótum.

Hrosskell gaf Þorgauti skipverja sínum land niðri í Síðu; hann bjó á Þorgautsstöðum; hans synir voru Gíslar tveir.

Börn þeirra Hallkels og Þuríðar voru þau Þórarinn og Finnvarður, Tindur og Illugi hinn svarti og Gríma, er átti Þorgils Arason. Þórarin vó Músa-Bölverkur, er hann bjó í Hraunsási; þá lét hann gera þar virki og veitti Hvítá í gegnum ásinn, en áður féll hún um Melrakkadal ofan. Illugi og Tindur sóttu Bölverk í virkið.