Landnámabók/23. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
23. kafli

Ásbjörn hinn auðgi Harðarson keypti land fyrir sunnan Kjarrá, upp frá Sleggjulæk til Hnitbjarga; hann bjó á Ásbjarnarstöðum. Hann átti Þorbjörgu, dóttur Miðfjarðar-Skeggja; þeirra dóttir var Ingibjörg, er átti Illugi hinn svarti.

Örnólfur hét maður, er nam Örnólfsdal og Kjarradal fyrir norðan upp til Hnitbjarga.

Ketill blundur keypti land að Örnólfi, allt fyrir neðan Klif, og bjó í Örnólfsdal. Örnólfur gerði þá bú upp í Kjarradal, þar er nú heita Örnólfsstaðir. Fyrir ofan Klif heitir Kjarradalur, því að þar voru hrískjörr og smáskógar milli Kjarrár (og) Þverár, svo að þar mátti eigi byggja. Blund-Ketill var maður stórauðigur; hann lét ryðja víða í skógum og byggja.

Hrómundur hét bróðir Gríms hins háleyska, son Þóris Gunnlaugssonar, Hrólfssonar, Ketilssonar kjölfara. Hrómundur kom skipi sínu í Hvítá; hann nam Þverárdal og Þverárhlíð ofan til Hallarmúla og fram til Þverár; hann bjó á Hrómundarstöðum; þar er nú kallað að Karlsbrekku. Hans son var Gunnlaugur ormstunga, er bjó á Gunnlaugsstöðum fyrir sunnan Þverá. Hann átti Vélaugu, sem fyrr er ritað.

Högni hét skipveri Hrómundar; hann bjó á Högnastöðum; hans son var Helgi að Helgavatni faðir Arngríms goða, er var að Blund-Ketils brennu. Högni var bróðir Finns hins auðga.

Ísleifur og Ísröður, bræður tveir, námu land ofan frá Sleggjulæk milli Örnólfsdalsár og Hvítár, hið nyrðra ofan til Rauðalækjar, en hið syðra ofan til Hörðahóla. Ísleifur bjó á Ísleifsstöðum, en Ísröður á Ísröðarstöðum og átti land hið syðra með Hvítá; hann var faðir Þorbjarnar, föður Ljóts á Veggjum, er féll í Heiðarvígi.

Ásgeir hét skipveri Hrómundar, er bjó á Hamri upp frá Helgavatni. Hann átti Hildi stjörnu, dóttur Þorvalds Þorgrímssonar brækis; þeirra synir voru þeir Steinbjörn hinn sterki og hinn stórhöggvi og Þorvarður, faðir Mævu, er Hrifla átti, og Þorsteinn hinn þriðji, fjórði Helgi, faðir Þórðar, föður Skáld-Helga.