Landnámabók/24. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
24. kafli

Arnbjörg hét kona; hún bjó að Arnbjargarlæk. Hennar synir voru þeir Eldgrímur, er bjó á hálsinn upp frá Arnbjargarlæk á Eldgrímsstöðum, og Þorgestur, er fékk banasár, þá er þeir Hrani börðust, þar sem nú heitir Hranafall.

Þórunn hét kona, er bjó í Þórunnarholti; hún átti land ofan til Víðilækjar og upp til móts við Þuríði spákonu, systur sína, er bjó í Gröf. Við hana er kenndur Þórunnarhylur í Þverá, og frá henni eru Hamarbyggjar komnir.

Þorbjörn, son Arnbjarnar Óleifssonar langháls, hann var bróðir Lýtings í Vopnafirði. Þorbjörn nam Stafaholtstungu milli Norðurár og Þverár; hann bjó í Arnarholti; hans son var Teitur í Stafaholti, faðir Einars.

Þorbjörn blesi nam land í Norðurárdal fyrir sunnan á upp frá Króki og Hellisdal allan og bjó á Blesastöðum. Hans son var Gísli að Melum í Hellisdal; við hann eru kennd Gíslavötn. Annar son Blesa var Þorfinnur á Þorfinnsstöðum, faðir Þorgerðar heiðarekkju, móður Þórðar erru, föður Þorgerðar, móður Helga að Lundi.

Geirmundur, son Gunnbjarnar gands, nam tunguna á milli Norðurár og Sandár og bjó í Tungu; hans son var Brúni, faðir Þorbjarnar að Steinum, er féll í Heiðarvígi.

Örn hinn gamli nam Sanddal og Mjóvadal og svo Norðurárdal ofan frá Króki til Arnarbælis og bjó á Háreksstöðum.

Rauða-Björn nam Bjarnardal og þá dali, er þar ganga af, og átti annað bú niður frá Mælifellsgili, en annað niðri í héraði, sem ritað er.

Karl nam Karlsdal upp frá Hreðuvatni og bjó undir Karlsfelli; hann átti land ofan til Jafnaskarðs til móts við Grím.

Grís og Grímur hétu leysingjar Skalla-Gríms; þeim gaf hann lönd uppi við fjöll, Grísi Grísartungu, en Grími Grímsdal.