Landnámabók/25. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
25. kafli

Bersi goðlauss hét maður, son Bálka Blæingssonar úr Hrútafirði; hann nam Langavatnsdal allan og bjó þar. Hans systir var Geirbjörg, er átti Þorgeir í Tungufelli; þeirra son var Véleifur hinn gamli.

Bersi goðlauss fékk Þórdísar, dóttur Þórhadds úr Hítardal, og tók með henni Hólmslönd; þeirra son var Arngeir, faðir Bjarnar Hítdælakappa.

Sigmundur hét einn leysingi Skalla-Gríms; honum gaf hann land milli Gljúfurár og Norðurár. Hann bjó að Haugum, áður hann færði sig í Munaðarnes; við hann er kennt Sigmundarnes.

Rauða-Björn keypti land að Skalla-Grími milli Gljúfurár og Gufár; hann bjó að Rauða-Bjarnarstöðum upp frá Eskiholti. Hans son var Þorkell trefill í Skarði og Helgi í Hvammi og Gunnvaldur, faðir Þorkels, er átti Helgu, dóttur Þorgeirs á Víðimýri.

Þorbjörn krumur og Þórður beigaldi hétu bræður tveir; þeim gaf Skalla-Grímur lönd fyrir utan Gufá, og bjó Þorbjörn í Hólum, en Þórður á Beigalda.

Þóri þurs og Þorgeiri jarðlang og Þorbjörgu stöng, systur þeirra, gaf Skalla-Grímur land upp með Langá fyrir sunnan; bjó Þórir á Þursstöðum, en Þorgeir á Jarðlangsstöðum, Þorbjörg í Stangarholti.

Einn maður hét Án, sá er Grímur gaf land ofan með Langá, milli og Háfslækjar; hann bjó að Ánabrekku; hans son var Önundur sjóni, faðir Steinars og Döllu, móður Kormáks.

Þorfinnur hinn strangi hét merkismaður Þórólfs Skalla-Grímssonar. Honum gaf Skalla-Grímur dóttur sína og land fyrir utan Langá út til Leirulækjar og upp til fjalls; hann bjó að Fossi. Þeirra dóttir var Þórdís, móðir Bjarnar Hítdælakappa.

Yngvar hét maður, faðir Beru, er Skalla-Grímur átti; honum gaf Grímur land á milli Leirulækjar og Straumfjarðar; hann bjó á Álftanesi. Önnur dóttir hans var Þórdís, er átti Þorgeir lambi á Lambastöðum, faðir Þórðar, er þrælarnir Ketils gufu brenndu inni; son Þórðar var Lambi hinn sterki.

Steinólfur hét maður, er nam Hraundal hvorntveggja allt til Grjótár að leyfi Skalla-Gríms; hann var faðir Þorleifs, er Hraundælir eru frá komnir.

Þórhaddur, son Steins mjögsiglanda Vígbjóðssonar, Böðmóðssonar úr búlkarúmi, hann nam Hítardal til Grjótár hið syðra, en hið ytra til Kaldár og á milli Hítár og Kaldár til sjóvar; hans son var Þorgeir, faðir Hafþórs, föður Guðnýjar, móður Þorláks hins auðga. Þorgeirs synir voru þeir Grímur í Skarði og Þórarinn, Finnbogi, Eysteinn, Gestur, Torfi.

Þorgils knappi, leysingi Kolla Hróaldssonar, nam Knappadal; hans synir voru þeir Ingjaldur og Þórarinn að Ökrum, og eignaðist land á milli Hítár og Álftár og upp til móts við Steinólf.

Son Þórarins var Þrándur, er átti Steinunni, dóttur Hrúts á Kambsnesi; þeirra synir voru þeir Þórir og Skúmur, faðir Torfa, föður Tanna; hans son var Hrútur, er átti Kolfinnu, dóttur Illuga hins svarta. Nú eru þeir menn taldir, er lönd hafa byggt í landnámi Skalla-Gríms.