Landnámabók/28. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
28. kafli

Sölvi hét maður, er nam land milli Hellis og Hraunhafnar. Hann bjó í Brenningi, en síðar á Sölvahamri, því að hann þóttist þar vera gagnsamari.

Sigmundur, son Ketils þistils, þess er numið hafði Þistilsfjörð norður, hann átti Hildigunni. Sigmundur nam land á milli Hellishrauns og Beruvíkurhrauns; hann bjó að Laugarbrekku og er þar heygður. Hann átti þrjá sonu; einn var Einar, er síðan bjó að Laugarbrekku. Þeir feðgar seldu Lónland Einari, er síðan bjó þar; hann var kallaður Lón-Einar.

Eftir andlát Sigmundar fór Einar til Laugarbrekku með sjöunda mann og stefndi Hildigunni um fjölkynngi.

En Einar, son hennar, var eigi heima. Hann kom heim, þá er Lón-Einar var nýfarinn á braut. Hildigunnur sagði honum þessi tíðindi og færði honum kyrtil nýgörvan. Einar tók skjöld sinn og sverð og verkhest og reið eftir þeim; hann sprengdi hestinn á Þúfubjörgum, en gat farið þá hjá Mannafallsbrekku. Þar börðust þeir og féllu fjórir menn af Lón-Einari, en þrælar hans tveir runnu frá honum. Þeir nafnar sóttust lengi, áður sundur gekk bróklindi Lón-Einars, og er hann tók þar til, hjó nafni hans hann banahögg.

Þræll Laugarbrekku-Einars hét Hreiðar: hann hljóp eftir þeim og sá af Þúfubjörgum, hvar þrælar Lón-Einars fóru; hann rann eftir þeim og drap þá báða í Þrælavík. Fyrir það gaf Einar honum frelsi og land svo vítt sem hann fengi gert um þrjá daga. Það heitir Hreiðarsgerði, er hann bjó síðan.

Einar að Laugarbrekku átti Unni, dóttur Þóris, bróður Ásláks í Langadal. Hallveig var dóttir þeirra, er Þorbjörn Vífilsson átti.

Breiður hét annar son Sigmundar, bróðir (Einars); hann átti Gunnhildi, dóttur Ásláks úr Langadal. Þeirra son var Þormóður, er átti Helgu Önundardóttur, systur Skáld-Hrafns, þeirra dóttir Herþrúður, er Símon átti, þeirra dóttir Gunnhildur, er Þorgils átti, þeirra dóttir Valgerður, móðir Finnboga hins fróða Geirssonar.

Þorkell hét hinn þriðji son Sigmundar; hann átti Jóreiði, dóttur (Tinds) Hallkelssonar.

Laugarbrekku-Einar var heygður skammt frá Sigmundarhaugi, og er haugur hans ávallt grænn vetur og sumar. Þorkell hét son Lón-Einars; hann átti Grímu Hallkelsdóttur fyrr en Þorgils Arason; Finnvarður var son þeirra. Önnur dóttir Laugarbrekku-Einars var Arnóra, er átti Þorgeir Vífilsson; þeirra dóttir var Yngvildur, er átti Þorsteinn, son Snorra goða. Þar var Inguður, dóttir þeirra, er átti Ásbjörn Arnórsson.