Landnámabók/29. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
29. kafli

Grímkell hét maður, son Úlfs kráku Hreiðarssonar, bróðir Gunnbjarnar, er Gunnbjarnarsker eru við kennd; hann nam land frá Beruvíkurhrauni til Neshrauns og út um Öndvertnes og bjó að Saxahvoli. Hann rak á brutt þaðan Saxa Álfarinsson Volasonar, og bjó hann síðan í Hrauni hjá Saxahvoli. Grímkell átti Þorgerði, dóttur Valþjófs hins gamla; þeirra son var Þórarinn korni. Hann var hamrammur mjög og liggur í Kornahaugi.

Þórarinn korni átti Jórunni, dóttur Einars í Stafaholti; þeirra dóttir var Járngerður, er átti Úlfur Uggason.

Klængur hét annar son Grímkels; hann átti Oddfríði, dóttur Helga af Hvanneyri. Son þeirra var Kolli, er átti Þuríði, dóttur Ásbrands frá Kambi. Þeirra son var Skeggi, faðir Þorkötlu, er átti Illugi, son Þorvalds Tindssonar, faðir Gils, er vó Gjafvald. Bárður hét annar son Kolla; hann átti Valgerði Viðarsdóttur. Vigdís var dóttir þeirra, er átti Þorbjörn hinn digri, þeirra dóttir Þórdís, er átti Þorbrandur að Ölfusvatni. Þórir var son þeirra og Bjarni á Breiðabólstað og Torfi, en dóttir Valgerður, er átti Rúnólfur byskupsson. Ásdís hét önnur dóttir Bárðar; hana átti fyrr Þorbjörn Þorvaldsson, bróðir Mána-Ljóts sammæðri, börn þeirra Þuríður, er átti Þorgrímur Oddsson, börn þeirra Geirmundur í Mávahlíð og fjórtán önnur. Ásdísi átti síðar Skúli Jörundarson; Valgerður að Mosfelli var dóttir þeirra.

Álfarinn Volason hafði fyrst numið nesið á milli Beruvíkurhrauns og Ennis. Hans synir voru þeir Höskuldur, er bjó að Höskuldsám, og Ingjaldur, er bjó á Ingjaldshvoli, en Goti að Gotalæk, en Hólmkell að Fossi við Hólmkelsá.

Óláfur belgur hét maður, er nam land fyrir innan Enni allt til Fróðár og bjó í Óláfsvík.