Landnámabók/32. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
32. kafli

Björn hét son Ketils flatnefs og Yngvildar, dóttur Ketils veðurs hersis af Hringaríki. Björn sat eftir að eignum föður síns, þá er Ketill fór til Suðureyja. En er Ketill hélt sköttum fyrir Haraldi konungi hinum hárfagra, þá rak konungur Björn son hans af eignum sínum og tók undir sig. Þá fór Björn vestur um haf og vildi þar ekki staðfestast; því var hann kallaður Björn hinn austræni. Hann átti Gjaflaugu Kjallaksdóttur, systur Bjarnar hins sterka.

Björn hinn austræni fór til Íslands og nam land á milli Hraunsfjarðar og Stafár; hann bjó í Bjarnarhöfn á Borgarholti og hafði selför upp til Selja og átti rausnarbú. Hann dó í Bjarnarhöfn og er heygður við Borgarlæk, því að hann einn var óskírður barna Ketils flatnefs.

Son þeirra Bjarnar og Gjaflaugar var Kjallakur hinn gamli, er bjó í Bjarnarhöfn eftir föður sinn, og Óttar, faðir Bjarnar, föður Vigfúss í Drápuhlíð, er Snorri goði lét drepa. Annar son Óttars var Helgi; hann herjaði á Skotland og tók þar að herfangi Niðbjörgu, dóttur Bjólans konungs og Kaðlínar, dóttur Göngu-Hrólfs; hann fékk hennar; var son þeirra Ósvífur hinn spaki og Einar skálaglamm, er drukknaði á Einarsskeri í Selasundi, og kom skjöldur hans í Skjaldey, en feldur á Feldarhólm. Einar var faðir Þorgerðar, móður Herdísar, móður Steins skálds. Ósvífur átti Þórdísi, dóttur Þjóðólfs úr Höfn; þeirra börn voru þau Óspakur, faðir Úlfs stallara og Þórólfur. Torráður, Einar, Þorbjörn og Þorkell, þeir urðu sekir um víg Kjartans Óláfssonar, og Guðrún, móðir Gellis og Bolla og Þorleiks og Þórðar kattar. Vilgeir hét son Bjarnar hins austræna.

Kjallakur hinn gamli átti Ástríði, dóttur Hrólfs hersis og Öndóttar, systur Ölvis barnakarls; þeirra son var Þorgrímur goði. Hann átti (Þórhildi); voru synir þeirra Víga-Styr og Vermundur mjóvi og Brandur, faðir Þorleiks. Dætur Kjallaks hins gamla Gerður, er Þormóður goði átti, og Helga, er Ásgeir á Eyri átti.