Landnámabók/33. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
33. kafli

Þórólfur son Örnólfs fiskreka bjó í Mostur; því var hann kallaður Mostrarskegg; hann var blótmaður mikill og trúði á Þór. Hann fór fyrir ofríki Haralds konungs hárfagra til Íslands og sigldi fyrir sunnan land. En er hann kom vestur fyrir Breiðafjörð, þá skaut hann fyrir borð öndvegissúlum sínum; þar var skorinn á Þór. Hann mælti svo fyrir, að Þór skyldi þar á land koma, sem hann vildi, að Þórólfur byggði; hét hann því að helga Þór allt landnám sitt og kenna við hann.

Þórólfur sigldi inn á fjörðinn og gaf nafn firðinum og kallaði Breiðafjörð. Hann tók land fyrir sunnan fjörðinn, nær miðjum firðinum; þar fann hann Þór rekinn í nesi einu; það heitir nú Þórsnes. Þeir lendu þar inn frá í voginn, er Þórólfur kallaði Hofsvog; þar reisti hann bæ sinn og gerði þar hof mikið og helgaði Þór; þar heita nú Hofstaðir. Fjörðurinn var þá byggður lítt eða ekki.

Þórólfur nam land frá Stafá inn til Þórsár og kallaði það allt Þórsnes. Hann hafði svo mikinn átrúnað á fjall það, er stóð í nesinu, er hann kallaði Helgafell, að þangað skyldi engi maður óþveginn líta, og þar var svo mikil friðhelgi, að öngu skyldi granda í fjallinu, hvorki fé né mönnum, nema sjálft gengi á braut. Það var trúa þeirra Þórólfs frænda, að þeir dæi allir í fjallið.

Þar á nesinu, sem Þór kom á land. Hafði Þórólfur dóma alla, og þar var sett héraðsþing með ráði allra sveitarmanna. En er menn voru þar á þinginu, þá skyldi víst eigi hafa álfreka á landi, og var ætlað til þess sker það, er Dritsker heitir, því að þeir vildu eigi saurga svo helgan völl sem þar var.

En þá er Þórólfur var dauður, en Þorsteinn son hans var ungur, þá vildu þeir Þorgrímur Kjallaksson og Ásgeir mágur hans eigi ganga í skerið örna sinna. Það þoldu eigi Þórsnesingar, er þeir vildu saurga svo helgan völl. Því börðust þeir Þorsteinn þorskabítur og Þorgeir kengur við þá Þorgrím og Ásgeir þar á þinginu um skerið, og féllu þar nokkurir menn, en margir urðu sárir, áður þeir urðu skildir. Þórður gellir sætti þá; og með því að hvorigir vildu láta af sínu máli, þá var völlurinn óheilagur af heiftarblóði. Þá var það ráð tekið að færa brutt þaðan þingið og inn í nesið, þar sem nú er; var þar þá helgistaður mikill, og þar stendur enn Þórssteinn, er þeir brutu þá menn um, er þeir blótuðu, og þar hjá er sá dómhringur, er menn skyldu til blóts dæma. Þar setti og Þórður gellir fjórðungsþing með ráði allra fjórðungsmanna.

Son Þórólfs Mostrarskeggja var Hallsteinn Þorskafjarðargoði, faðir Þorsteins surts hins spaka. Ósk var móðir Þorsteins surts, dóttir Þorsteins rauðs. Annar son Þórólfs var Þorsteinn þorskabítur; hann átti Þóru, dóttur Óláfs feilans, systur Þórðar gellis. Þeirra son var Þorgrímur, faðir Snorra goða, og Börkur hinn digri, faðir Sáms, er Ásgeir vó.