Landnámabók/36. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
36. kafli

Ingólfur hinn sterki nam land inn frá Laxá til Skraumuhlaupsár og bjó á Hólmslátri; hans bróðir var Þorvaldur, faðir Þorleifs, er þar bjó síðan.

Óleifur hinn hvíti hét herkonungur; hann var son Ingjalds konungs Helgasonar, Óláfssonar, Guðröðarsonar, Hálfdanarsonar hvítbeins Upplendingakonungs. Óleifur hinn hvíti herjaði í vesturvíking og vann Dyflinni á Írlandi og Dyflinnarskíri og gerðist þar konungur yfir; hann fékk Auðar hinnar djúpauðgu dóttur Ketils flatnefs; Þorsteinn rauður hét son þeirra. Óleifur féll á Írlandi í orustu, en Auður og Þorsteinn fóru þá í Suðureyjar. Þar fékk Þorsteinn Þuríðar dóttur Eyvindar austmanns, systur Helga hins magra; þau áttu mörg börn. Óláfur feilan hét son þeirra, en dætur Gróa og Álöf, Ósk og Þórhildur, Þorgerður og Vigdís.

Þorsteinn gerðist herkonungur; hann réðst til félags með Sigurði (jarli) hinum ríka, syni Eysteins glumru. Þeir unnu Katanes og Suðurland, Ros og Merrhæfi og meir en hálft Skotland. Gerðist Þorsteinn þar konungur yfir, áður Skotar sviku hann, og féll hann þar í orustu.

Auður var þá á Katanesi, er hún spurði fall Þorsteins. Hún lét þá gera knörr í skógi á laun, en er hann var búinn, hélt hún út í Orkneyjar; þar gifti hún Gró, dóttur Þorsteins rauðs; hún var móðir Grélaðar, er Þorfinnur hausakljúfur átti. Eftir það fór Auður að leita Íslands; hún hafði á skipi með sér tuttugu karla frjálsa.