Landnámabók/38. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
38. kafli

Auður gaf land skipverjum sínum og leysingjum.

Ketill hét maður, er hún gaf land frá Skraumuhlaupsá til Hörðadalsár; hann bjó á Ketilsstöðum. Hann var faðir Vestliða og Einars, föður Kleppjárns og Þorbjarnar, er Styr vó, og Þórdísar móður Þorgests.

Hörður hét skipveri Auðar; honum gaf hún Hörðadal. Hans son var Ásbjörn, er átti Þorbjörgu dóttur Miðfjarðar-Skeggja, þeirra börn Hnaki, hann átti Þorgerði, dóttur Þorgeirs höggvinkinna, og Ingibjörg, er Illugi hinn svarti átti.

Vífill hét leysingi Auðar; hann spurði þess Auði, hví hún gaf honum öngvan bústað sem öðrum mönnum. Hún kvað það eigi skipta, kvað hann þar göfgan mundu þykja, sem hann væri. Honum gaf hún Vífilsdal; þar bjó hann og átti deilur við Hörð.

Son Vífils var Þorbjörn, faðir Guðríðar, er átti Þorsteinn, sonur Eiríks hins rauða, (en síðar Þorfinnur karlsefni; frá þeim eru) byskupar komnir: Björn, Þorlákur, Brandur.

Annar son Vífils var Þorgeir, er átti Arnóru dóttur Lón-Einars, þeirra dóttir Yngvildur, er átti Þorsteinn, son Snorra goða.

Hundi hét leysingi Auðar skoskur; honum gaf hún Hundadal; þar bjó hann lengi.

Sökkólfur hét leysingi Auðar; honum gaf hún Sökkólfsdal; hann bjó á Breiðabólstað, og er margt manna frá honum komið.

Erpi syni Meldúns jarls, er fyrr var getið, gaf Auður frelsi og Sauðafellslönd; frá honum eru Erplingar komnir.

Ormur hét son Erps, annar Gunnbjörn, faðir Arnóru, er átti Kolbeinn Þórðarson, þriðji Ásgeir, faðir Þórörnu, er átti Sumarliði Hrappsson; dóttir Erps var Halldís, er átti Álfur í Dölum; Dufnall var enn son Erps, faðir Þorkels, föður Hjalta, föður Beinis; Skati var enn son Erps, faðir Þórðar, föður Gísla, föður Þorgerðar.

Þorbjörn hét maður, er bjó að Vatni í Haukadal; hann átti..., og var þeirra dóttir Hallfríður, er átti Höskuldur í Laxárdal; þau áttu mörg börn. Bárður var son þeirra og Þorleikur, faðir Bolla, er átti Guðrúnu Ósvífursdóttur; þeirra synir voru þeir Þorleikur og Höskuldur, Surtur og Bolli, Herdís og Þorgerður dætur þeirra. Þórður Ingunnarson átti fyrr Guðrúnu, og voru þeirra börn Þórður köttur og Arnkatla. Þorkell Eyjólfsson átti Guðrúnu síðast, þeirra börn Gellir og Rjúpa. Bárður Höskuldsson var faðir Hallbjargar, er átti Hallur, son Víga-Styrs. Hallgerður snúinbrók var dóttir Höskulds og Þorgerður og Þuríður.