Landnámabók/54. kafli

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Þröstur og Grenjuður synir Hermundar hokins námu land í Hrútafirði inn frá Borðeyri og bjuggu að Melum. Frá Grenjaði var kominn Hesta-Gellir prestur, en Ormur frá Þresti. Son Þrastar var og Þorkell á Kerseyri, faðir Guðrúnar, er átti Þorbjörn þyna, son Hrómundar halta; þeir bjuggu að Fagrabrekku. Þorleifur Hrómundarfóstri var son þeirra. Hásteinn hét enn son Hrómundar; þeir voru allir um eitt ráð. Þórir hét son Þorkels Þrastarsonar; hann bjó að Melum; Helga hét dóttir hans.

Í þann tíma kom Sleitu-Helgi út á Borðeyri og Jörundur bróðir hans; þeir voru víkingar tólf frjálsir og sveinar umfram; þeir fóru allir til Mela. Þá fékk Helgi Helgu Þórisdóttur.

Þeim Hrómundi hurfu stóðhross; það kenndu þeir Helga, og stefndi Miðfjarðar-Skeggi þeim um stuld til alþingis. En þeir Hrómundur skyldu gæta héraðs og höfðu virki gott á Brekku. Austmenn bjuggu skip sitt.

Einn morgin kom hrafn á ljóra á Brekku og gall hátt; þá kvað Hrómundur:

Út heyrik svan sveita
sára þorns, es mornar,
bráð vekr borginmóða,
bláfjallaðan gjalla.
Svá gól fyrr, þás feigir
folknárungar váru,
Gunnar haukr, es gaukar
Gauts bragða spá sögðu.

Þorbjörn kvað:

Hlakkar hagli stokkinn,
hræs es kemr at sævi,
móðr krefr morginbráðar,
már valkastar báru.
Svá gól endr þás unda
eiðs af fornum meiði
hræva gaukr, es haukar
hildinga mjöð vildu.

Í þenna tíma komu austmenn í virkið, því að verkmenn höfðu eigi aftur látið. Þeir bræður gengu út, en konur sögðu Hrómund of gamlan en Þorleif of ungan að ganga út; hann var fimmtán vetra. Þá kvað Hrómundur:

Vasat mér í dag dauði,
draugr flatvallar bauga,
búumsk við Ilmar jalmi
áðr, né gær of ráðinn.
Rækik lítt, þótt leiki
litvöndr Heðins fitjar,
oss vas áðr of markaðr
aldr, við rauða skjöldu.

Austmenn féllu sex í virkinu, en aðrir sex stukku brutt.

Þá er Þorbjörn vildi lúka aftur virkinu, var hann skotinn í gegnum með atgeiri; Þorbjörn tók atgeirinn úr sárinu og setti milli herða Jörundi, svo að út kom í brjóstið. Helgi kastaði honum á bak sér og rann svo. Fallinn var Hrómundur, en Þorleifur sár til ólífis. Hásteinn rann eftir þeim, þar til er Helgi kastaði af sér Jörundi dauðum; þá hvarf hann aftur. Konur spurðu tíðenda; Hásteinn kvað:

Hér hafa sex, þeirs sævask
sútlaust, bana úti
svipnjörðungar, sverðum,
sárteins á brústeinum.
Hygg, at halfir liggi
heftendr laga eftir.
Eggskeindar létk undir
óbíðingum svíða.

Konur spurðu, hve margir þeir væri; Hásteinn kvað:

Barka fúr með fleiri
fetla stígs at vígi.
Fyrir várum þar fjórir
frændr ofstopa vændir.
En tolf af glað Gylfa
gunnþings hvatir runnu,
köld ruðum vápn, þeirs vildu
várs fundar til skunda.

Konur spurðu, hve margir fallnir væri af víkingum; Hásteinn kvað:

Sjau hafa sækitívar
Svölnis garðs til jarðar,
blóð fell varmt á virða
valdögg, nösum höggvit.
Munat fúrviðir fleiri
Fjölnis þings en hingat
út um Ekkils brautir
Jalks mærar skæ færa.
Hér megu hælibvörvar
hljóms daltangar skjóma
dýrs, hvat drýgðu fjórir
dagverks séa merki.
En ek, hyrbrigðir, hugða,
hrafn sleit af ná beitu,
Gunnar ræfrs, at gæfim
griðbítum frið lítinn.
Unnum auðimönnum,
ák þunnan hjör, Gunnar,
drógumsk vér at vígi,
verkdreyruga serki.
Höfðu herðilofðar
hildar borðs und skildi,
þvarr hangrvölum hanga
hungr, vésæritungur.
Harðr vas gnýr, þás gerðum
grjótvarps lotu snarpa.
Gengu sverðs at söngvi
sundr gráklæði Þundar,
áðr á hæl til hvílðar,
hlutu þeir bana fleiri,
hjaldrs kom hríð á skjöldu,
hækings viðir æki.
Heyri svan, þars sára
sigrstalls viðir falla,
benskári drekkr báru
blóðfalls, of ná gjalla.
Þar fekk örn, en erni
eru greipr hræum sveipðar,
sylg, es Sleitu-Helgi
sekðauðigr felt rauðu.
Báru upp af ára
allþakkliga blakki
ýtar oss at móti
almþingssamir hjalma,
en á braut þeir báru
beiðendr goðum leiðir
hlíða herðimeiðar
hauðrmens skarar rauðar.

Þeir Helgi létu út hinn sama dag og týndust allir á Helgaskeri fyrir Skriðinsenni. Þorleifur varð græddur og bjó að Brekku. Hásteinn fór utan og féll á Orminum langa.

Nú eru rituð landnám flest í Vestfirðingafjórðungi, eftir því sem fróðir menn hafa sagt. Má það nú heyra, að þann fjórðung hefir margt stórmenni byggt, og frá þeim eru margar göfugar ættir komnar, sem nú mátti heyra.

Þessir landnámsmenn eru göfgastir í Vestfirðingafjórðungi: Hrosskell, Skalla-Grímur, Sel-Þórir, Björn hinn austræni, Þórólfur Mostrarskegg, Auður djúpauðga, Geirmundur heljarskinn, Úlfur skjálgi, Þórður Víkingsson, þótt langfeður haldist stærra í sumum ættum. En þá er bændur voru taldir á Íslandi, þá voru níu hundruð bónda í þessum fjórðungi.