Landnámabók/56. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
56. kafli

Ketill raumur hét hersir ágætur í Raumsdal í Noregi; hann var son Orms skeljamola, Hross-Bjarnarsonar, Raumssonar, Jötun-Bjarnarsonar norðan úr Noregi. Ketill átti Mjöll, dóttur Ánar bogsveigis. Þorsteinn hét son þeirra; hann vó á skóginum til Upplanda af áeggjun föður síns Jökul, son Ingimundar jarls af Gautlandi. Jökull gaf honum líf. Síðan fékk Þorsteinn Þórdísar systur hans. Þeirra son var Ingimundur hinn gamli; hann var fæddur í Hefni með Þóri, föður Gríms og Hrómundar.

Heiður völva spáði þeim öllum að byggja á því landi, er þá var ófundið vestur í haf, en Ingimundur kveðst við því skyldu gera. Völvan sagði hann það eigi mundu mega og sagði það til jartegna, að þá mundi horfinn hlutur úr pússi hans og mundi þá finnast, er hann græfi fyrir öndvegissúlum sínum á landinu.

Ingimundur var víkingur mikill og herjaði í vesturvíking jafnan. Sæmundur hét félagi hans suðureyskur. Þeir komu úr hernaði þann tíma, er Haraldur konungur gekk til lands og lagði til orustu í Hafursfirði við þá Þóri haklang. Ingimundur vildi veita konungi, en Sæmundur eigi, og skildi þar félag þeirra. Eftir orustuna gifti konungur Ingimundi Vigdísi, dóttur Þóris jarls þegjanda; þau Jörundur háls voru frillubörn hans.

Ingimundur undi hvergi; því fýsti Haraldur konungur hann að leita forlaga sinna til Íslands. Ingimundur lést það eigi ætlað hafa, en þó sendi hann þá Finna tvo í hamförum til Íslands eftir hlut sínum. Það var Freyr og gör af silfri. Finnar komu aftur og höfðu fundið hlutinn og nát eigi; vísuðu þeir Ingimundi til í dal einum milli holta tveggja og sögðu Ingimundi allt landsleg, hve háttað var þar er hann skyldi byggja.

Eftir það byrjar Ingimundur för sína til Íslands og með honum Jörundur háls mágur hans og Eyvindur sörkvir og Ásmundur og Hvati, vinir hans, og þrælar hans, Friðmundur, Böðvar, Þórir refskegg, Úlfkell. Þeir tóku (Grímsárós) fyrir sunnan land og voru allir um veturinn á Hvanneyri með Grími fóstbróður Ingimundar. En um vorið fóru þeir norður um heiðar; þeir komu í fjörð þann, er þeir fundu hrúta tvo; það kölluðu þeir Hrútafjörð; síðan fóru þeir norður um héruð og gáfu víða örnefni. Hann var um vetur í Víðidal í Ingimundarholti. Þeir sá þaðan fjöll snælaus í landsuður og fóru þann veg um vorið; þar kenndi Ingimundur lönd þau, er honum var til vísað. Þórdís, dóttir hans, var alin í Þórdísarholti.

Ingimundur nam Vatnsdal allan upp frá Helgavatni og Urðarvatni fyrir austan. Hann bjó að Hofi og fann hlut sinn, þá er hann gróf fyrir öndvegissúlum sínum. Þorsteinn var son þeirra Vigdísar og Jökull og Þórir hafursþjó og Högni; Smiður hét ambáttar son og Ingimundar, en dætur Jórunn og Þórdís.