Landnámabók/57. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
57. kafli

Jörundur (háls) nam út frá Urðarvatni til Mógilslækjar og bjó á Grund undir Jörundarfelli; hans son var Már á Másstöðum.

Hvati nam út frá Mógilslæk til Giljár og bjó á Hvatastöðum.

Ásmundur nam út frá Helgavatni um Þingeyrasveit og bjó undir Gnúpi.

Friðmundur nam Forsæludal.

Eyvindur sörkvir nam Blöndudal; hans son var Hermundur og Hrómundur hinn halti.

Ingimundur fann beru og húna tvo hvíta á Húnavatni. Eftir það fór hann utan og gaf Haraldi konungi dýrin; ekki höfðu menn í Noregi áður séð hvítabjörnu. Þá gaf Haraldur konungur Ingimundi skip með viðarfarmi, og sigldi hann tveim skipum fyrir norðan land fyrstur manna fyrir Skaga og hélt upp í Húnavatn; þar er Stígandahróf hjá Þingeyrum.

Eftir það var Hrafn austmaður með Ingimundi; hann hafði sverð gott; það bar hann í hof; því tók Ingimundur af honum sverðið.

Hallormur og Þórormur bræður komu út og voru með Ingimundi; þá fékk Hallormur Þórdísar dóttur hans, og fylgdu henni Kárnsárlönd. Þeirra son var Þorgrímur Kárnsárgoði. Þórormur bjó í Þórormstungu.

Ingimundi hurfu svín tíu og fundust annað haust í Svínadal, og var þá hundrað svína. Göltur hét Beigaður; hann hljóp á Svínavatn og svam, þar til er af gengu klaufirnar; hann sprakk á Beigaðarhóli.