Landnámabók/59. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
59. kafli

Eyvindur auðkúla hét maður; hann nam allan Svínadal og bjó á Auðkúlustöðum, en Þorgils gjallandi bjó að Svínavatni, er út kom með Auðuni skökli. Hans synir voru þeir Digur-Ormur, er vógu Skarpheðin Véfröðarson.

Þorbjörn kólka hét maður. Hann nam Kólkumýrar og bjó þar, meðan hann lifði.

Eyvindur sörkvir nam Blöndudal, sem fyrr er ritað. Hans son var Hrómundur hinn halti, er vó Högna Ingimundarson, þá er þeir Már og Ingimundarsynir börðust um Deildarhjalla; því var hann gör úr Norðlendingafjórðungi. Hans synir voru þeir Hásteinn og Þorbjörn, er börðust við Sleitu-Helga í Hrútafirði. Annar son Eyvindar var Hermundur, faðir Hildar, er átti Ávaldi Ingjaldsson. Þeirra börn voru þau Kolfinna, er átti Grís Sæmingsson, og Brandur, er vó Galta Óttarsson á Húnavatnsþingi fyrir níð Hallfreðar.

Ævar hét maður son Ketils helluflaga og Þuríðar, dóttur Haralds konungs gullskeggs úr Sogni. Ævar átti...; þeirra son var Véfröður. Synir Ævars laungetnir voru þeir Karli og Þorbjörn strúgur og Þórður mikill. Ævar fór til Íslands úr víkingu og synir hans aðrir en Véfröður; með honum fór út Gunnsteinn frændi hans og Auðólfur og Gautur, en Véfröður var eftir í víkingu.

Ævar kom skipi sínu í Blönduós; þá voru numin lönd fyrir vestan Blöndu. Ævar fór upp með Blöndu að leita sér landnáms, en er hann kom þar sem heita Móbergsbrekkur, setti hann þar niður stöng háva og kveðst þar taka Véfröði syni sínum bústað. Síðan nam hann Langadal allan upp þaðan og svo þar fyrir norðan háls; þar skipti hann löndum með skipverjum sínum. Ævar bjó í Ævarsskarði.

Véfröður kom út síðar í Gönguskarðsárósi og gekk norðan til föður síns, og kenndi faðir hans hann eigi. Þeir glímdu, svo að upp gengu stokkar allir í húsinu, áður Véfröður sagði til sín. Hann gerði bú að Móbergi, sem ætlað var, en Þorbjörn strúgur á Strúgsstöðum, en Gunnsteinn á Gunnsteinsstöðum, Karli á Karlastöðum, Þórður á Mikilsstöðum, Auðólfur á Auðólfsstöðum.

Gautur byggði Gautsdal; hann var einhendur. Þeir Eyvindur sörkvir fóru sér sjálfir og vildu eigi lifa Ingimund hinn gamla. Haukur bjó þar sem nú heita Hauksgrafir.

Véfröður átti Gunnhildi dóttur Eiríks úr Guðdölum, systur Hólmgöngu-Starra. Þeirra synir voru þeir Úlfheðinn, er þeir Þjóstólfur vógu við Grindalæk, og Skarpheðinn, er þeir Digur-Ormur vógu í Vatnsskarði, og Húnröður, faðir Más, föður Hafliða.

Holti hét maður, er nam Langadal ofan frá Móbergi og bjó á Holtastöðum; hann var faðir Ísröðar, föður Ísleifs, föður Þorvalds, föður Þórarins hins spaka. Dóttir Þorvalds var Þórdís, er átti Halldór son Snorra goða. Þeirra dætur voru þær Þorkatla, er átti Guðlaugur Þorfinnsson í Straumsfirði; þaðan eru Sturlungar komnir og Oddaverjar. Önnur var Guðrún, er átti Kjartan Ásgeirsson úr Vatnsfirði, þeirra börn Þorvaldur og Ingiríður, er Guðlaugur prestur átti.

Hólmgöngu-Máni hét maður, er nam Skagaströnd fyrir vestan inn til Fossár, en fyrir austan til Mánaþúfu og bjó í Mánavík. Hans dóttur átti Þorbrandur í Dölum, faðir Mána, föður Kálfs skálds.