Landnámabók/60. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
60. kafli

Eilífur örn hét maður, son Atla Skíðasonar hins gamla, Bárðarsonar í Ál. Son Eilífs arnar var Koðrán að Giljá og Þjóðólfur goði að Hofi á Skagaströnd og Eysteinn, faðir Þorvalds tinteins og Þorsteins heiðmennings og Arnar í Fljótum. Eilífur nam land inn frá Mánaþúfu til Gönguskarðsár og Laxárdal og bjó þar.

Eilífur átti Þorlaugu dóttur Sæmundar úr Hlíð; þeirra synir voru þeir Sölmundur, faðir Guðmundar, föður þeirra Víga-Barða og bræðra hans. Annar var Atli hinn rammi, er átti Herdísi, dóttur Þórðar frá Höfða. Þeirra börn voru þau Þorlaug, er átti Guðmundur hinn ríki, og Þórarinn, er átti Höllu, dóttur Jörundar háls. Son þeirra var Styrbjörn, er átti Yngvildi, dóttur Steinröðar Heðinssonar frá Heðinshöfða, þeirra dóttir Arndís, er átti Hamall Þormóðarson, Þorkelssonar mána.

Sæmundur hinn suðureyski, félagi Ingimundar hins gamla, sem ritað er, hann kom skipi sínu í Gönguskarðsárós. Sæmundur nam Sæmundarhlíð alla til Vatnsskarðs, fyrir ofan Sæmundarlæk, og bjó á Sæmundarstöðum; hans son var Geirmundur, er þar bjó síðar. Dóttir Sæmundar var Reginleif, er átti Þóroddur hjálmur, þeirra dóttir Hallbera, móðir Guðmundar hins ríka, föður Eyjólfs, föður Þóreyjar, móður Sæmundar hins fróða. Arnaldur hét annar son Sæmundar, faðir Rjúpu, er átti Þorgeir, son Þórðar frá Höfða; þeirra son var Halldór frá Hofi.

Skefill hét maður, er skipi sínu kom í Gönguskarðsárós á hinni sömu viku og Sæmundur. En meðan Sæmundur fór eldi um landnám sitt, þá nam Skefill land allt fyrir utan Sauðá; það tók hann af landnámi Sæmundar að ólofi hans, og lét Sæmundur það svo búið vera.

Úlfljótur hét maður; hann nam Langaholt allt fyrir neðan Sæmundarlæk.

Þorkell vingnir, son Skíða hins gamla, hann nam land um Vatnsskarð allt og Svartárdal. Hans son var Arnmóður skjálgi, faðir Galta, föður Þorgeirs, föður Styrmis, föður Halls, föður Kolfinnu.

Álfgeir hét maður, er nam um Álfgeirsvöllu og upp til Mælifellsár og bjó á Álfgeirsvöllum.

Þorviður hét maður, sá er land nam upp frá Mælifellsá til Giljár.

Hrosskell hét maður, er nam Svartárdal allan og Ýrarfellslönd öll með ráði Eiríks; hann nam ofan til Gilhaga og bjó að Ýrarfelli. Hann átti þræl þann, er Roðrekur hét; hann sendi hann upp eftir Mælifellsdal í landaleitan suður á fjöll. Hann kom til gils þess, er verður suður frá Mælifelli og nú heitir Roðreksgil; þar setti hann niður staf nýbirktan, er (þeir) kölluðu Landkönnuð, og eftir það snýr hann aftur.