Landnámabók/64. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
64. kafli

Hjalti son Þórðar skálps kom til Íslands og nam Hjaltadal að ráði Kolbeins og bjó að Hofi; hans synir voru þeir Þorvaldur og Þórður, ágætir menn.

Það hefir erfi verið ágætast á Íslandi, er þeir erfðu föður sinn, og voru þar tólf hundruð boðsmanna, og voru allir virðingamenn með gjöfum brutt leiddir.

Að (því) erfi færði Oddur Breiðfirðingur drápu þá, er hann hafði ort um Hjalta. Áður hafði Glúmur Geirason stefnt Oddi til Þorskafjarðarþings; þá fóru Hjaltasynir norðan skipi til Steingrímsfjarðar og gengu norðan um heiðina, þar sem nú er kölluð Hjaltdælalaut. En er þeir gengu á þingið, voru þeir svo vel búnir, að menn hugðu, að Æsir væri (þar) komnir. Þar um er þetta kveðið:

Manngi hugði manna
morðkannaðra annat,
ísarns meiðr, en Æsir
almærir þar færi,
þás á Þorskafjarðar
þing með ennitinglum
holtvartaris Hjalta
harðfengs synir gengu.

Frá Hjaltasonum er mikil ætt komin og göfug.

Þórður hét maður ágætur hann var son Bjarnar byrðusmjörs, Hróaldssonar hryggs, Bjarnarsonar járnsíðu, Ragnarssonar loðbrókar. Þórður fór til Íslands og nam Höfðaströnd í Skagafirði á milli Unadalsár og Hrolleifsdalsár og bjó að Höfða.

Þórður átti Þorgerði dóttur Þóris hímu og Friðgerðar, dóttur Kjarvals Írakonungs; þau áttu nítján börn.

Björn var son þeirra; hann átti Þuríði, dóttur Refs frá Barði, og voru þeirra börn Arnór kerlingarnef og Þórdís, móðir Orms, föður Þórdísar, móður Bótólfs, föður Þórdísar, móður Helgu, móður Guðnýjar, móður Sturlusona.

Þorgeir hét annar son Þórðar; hann átti Rjúpu dóttur Arnalds Sæmundarsonar, þeirra son Halldór að Hofi.

Snorri var hinn þriðji; hann átti Þórhildi rjúpu, dóttur Þórðar gellis; þeirra son var Þórður hesthöfði.

Þorvaldur holbarki var hinn fjórði; hann kom um haust eitt á Þorvarðsstaði til Smiðkels og dvaldist þar um hríð. Þá fór hann upp til hellisins Surts og færði þar drápu þá, er hann hafði ort um jötuninn í hellinum. Síðan fékk hann dóttur Smiðkels, og þeirra dóttir var Jórunn, móðir Þorbrands í Skarfsnesi.

Bárður var hinn fimmti son Þórðar; hann átti Þórörnu dóttur Þórodds hjálms; þeirra son var Daði skáld. Söxólfur var hinn sétti son Þórðar, sjöundi Þorgrímur, átti Hróar, níundi Knör, tíundi Þormóður skalli, ellefti Steinn.

Dóttir Þórðar var Þorlaug, er átti Arnbjörn Sleitu-Bjarnarson, þeirra dóttir Guðlaug, er átti Þorleikur Höskuldsson, þeirra son Bolli.

Herdís var önnur dóttir Þórðar; hana átti Atli hinn rammi. Þorgríma skeiðarkinn var en þriðja, fjórða Arnbjörg, fimmta Arnleif, sétta Ásgerður, sjöunda Þuríður, átta Friðgerður í Hvammi.

Hrolleifur hinn mikli byggði Hrolleifsdal, sem ritað er áður. Þórður gerði hann norðan fyrir víg Odds Unasonar; þá fór hann í Vatnsdal.