Landnámabók/67. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
67. kafli

Maður hét Þorsteinn svarfaður son Rauðs ruggu í Naumudal; hann átti Hildi dóttur Þráins svartaþurs. Þorsteinn fór til Íslands og nam Svarfaðardal að ráði Helga. Börn hans voru þau Karl hinn rauði, er bjó að Karlsá, og Guðrún, er átti Hafþór víkingur. Þeirra börn voru þau Klaufi og Gróa, er átti Grís gleðill.

Atli illingur hét maður; hann drap Hafþór, en setti Karl í járn; þá kom Klaufi á óvart og drap Atla, en tók Karl úr járni. Klaufi átti Yngvildi rauðkinn dóttur Ásgeirs rauðfeldar, systur þeirra Óláfs völubrjóts og Þorleifs. Fyrir þeim hjó hann jafnabelg, er þeir tóku í landi hans. Þá kvað Þorleifur þetta:

Belg hjó fyrir mér
Böggvir snöggvan,
en fyrir Áleifi
ál ok verju.
Svá skal verða,
ef vér lifum,
við böl búinn
Böggvir höggvinn.

Þar af gerðist Svarfdæla saga.

Karl hét maður, er nam Strönd alla út frá Upsum til Mígandi.

Hámundur heljarskinn son Hjörs konungs miðlaði lönd við Örn frænda sinn, þá er hann kom vestan, þann er numið hafði Arnarfjörð, og bjó hann í Arnarnesi. Hans dóttir var Iðunn, er átti Ásgeir rauðfeldur. Son Arnar var Narfi, er Narfasker eru við kennd; hann átti Úlfheiði dóttur Ingjalds úr Gnúpufelli. Þeirra synir voru þeir Ásbrandur, faðir Hellu-Narfa, og Eyjólfur, faðir Þorvalds í Haga, og Helgi, faðir Gríms á Kálfskinni.

Galmur hét maður, er nam Galmansströnd á milli Þorvaldsdalsár og Reistarár. Hans son var Þorvaldur, faðir Orms, föður Barna-Þórodds, föður Þórunnar, móður Dýrfinnu, móður Þorsteins smiðs Skeggjasonar. Þorvaldi gaf Hámundur land milli Reistarár og Hörgár, en hann hafði áður búið í Þorvaldsdal.

Geirleifur hét maður; hann nam Hörgárdal upp til Myrkár; hann var Hrappsson og bjó í Haganum forna. Hans son var Björn hinn auðgi, er Auðbrekkumenn eru frá komnir.