Landnámabók/68. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
68. kafli

Maður hét Þórður slítandi; hann nam Hörgárdal upp frá Myrká og ofan til Dranga öðrum megin. Hans son var Örnólfur, er átti Yngvildi allrasystur. Þeirra synir voru þeir Þórður og Þorvarður í Kristnesi og Steingrímur að Kroppi. Þórður slítandi gaf Skólm, frænda sínum, af landnámi sínu. Hans son var Þórálfur hinn sterki, er bjó að Myrká.

Þórir þursasprengir hét maður; hann var fæddur í Ömð á Hálogalandi og varð missáttur við Hákon jarl Grjótgarðsson og fór af því til Íslands; hann nam Öxnadal allan og bjó að Vatnsá. Hans son var Steinröður hinn rammi, er mörgum manni vann bót, þeim er aðrar meinvættir gerðu mein. Geirhildur hét fjölkunnig kona og meinsöm. Það sá ófreskir menn, að Steinröður kom að henni óvarri, en hún brá sér í nautsbelgs líki vatnsfulls. Steinröður var járnsmiður; hann hafði járngadd mikinn í hendi. Um fund þeirra er þetta kveðið:

Fork lætr æ sem orkar
atglamrandi hamra
á glotkylli gjalla
Geirhildar hví meira.
Járnstafr skapar ærna,
eru sollin rif trolli,
hár á Hjaltaeyri
hríð kerlingar síðu.

Dóttir Steinröðar var Þorljót, er átti Þorvarður í Kristnesi.

Auðólfur hét maður; hann fór af Jaðri til Íslands og nam Öxnadal niður frá Þverá til Bægisár og bjó að hinni syðri Bægisá; hann átti Þórhildi, dóttur Helga hins magra. Þeirra dóttir var Yngvildur, er átti Þóroddur hjálmur, faðir Arnljóts, föður Halldórs.

Eysteinn son Rauðúlfs Öxna-Þórissonar nam land niður frá Bægisá til Kræklingahlíðar og bjó að Lóni. Hans son var Gunnsteinn, er átti Hlíf, dóttur Heðins úr Mjölu. Þeirra börn voru þau Halldóra, er Víga-Glúmur átti, og Þorgrímur og Grímur eyrarleggur.

Eyvindur hani hét maður göfugur; hann kom út síð landnámatíðar; hann átti skip við Þorgrím Hlífarson. Hann var frændi Öndóttssona; þeir gáfu honum land, og bjó hann í Hanatúni og var kallaður Túnhani. Þar er nú kallað Marbæli. Hann átti Þórnýju, dóttur Stórólfs Öxna-Þórissonar. Hans son var Snorri Hlíðmannagoði.