Landnámabók/70. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
70. kafli

Helgi hinn magri gaf Hámundi mági sínum land milli Merkigils og Skjálgdalsár, og bjó hann á Espihóli hinum syðra. Hans son var Þórir, er þar bjó síðan; hann átti Þórdísi Kaðalsdóttur. Þeirra son var Þórarinn á Espihóli hinum nyrðra og Þorvaldur krókur á Grund, en Þorgrímur í Möðrufelli var eigi hennar son; Vigdís var dóttir þeirra.

Helgi gaf Þóru dóttur sína Gunnari syni Úlfljóts, er lög hafði út, og land upp frá Skjálgdalsá til Háls; hann bjó í Djúpadal. Þeirra börn voru þau Þorsteinn, Ketill og Steinmóður, en dætur Yngvildur og Þorlaug.

Helgi gaf Auðuni rotin, syni Þórólfs smjörs, Þorsteinssonar skrofa, Gríms sonar kambans, Helgu dóttur sína, og land upp frá Hálsi til Villingadals; hann bjó í Saurbæ. Þeirra börn voru þau Einar, faðir Eyjólfs Valgerðarsonar, og Vigdís, móðir Halla hins hvíta, föður Orms, föður Gellis, föður Orms, föður Halla, föður Þorgeirs, föður Þorvarðs og Ara, föður Guðmundar byskups.

Hámundur heljarskinn fékk Helgu Helgadóttur eftir andlát Ingunnar, systur hennar, og var þeirra dóttir Yngvildur, er kölluð var allrasystir, er Örnólfur átti.

Helgi gaf Hrólfi syni sínum öll lönd fyrir austan Eyjafjarðará frá Arnarhvoli upp, og hann bjó í Gnúpufelli og reisti þar hof mikið; hann átti Þórörnu dóttur Þrándar mjóbeins. Þeirra börn voru þau Hafliði hinn örvi og Valþjófur, Viðar, Grani og Böðvar, Ingjaldur og Eyvindur, en dóttir Guðlaug, er Þorkell hinn svarti átti. Valþjófur var faðir Helga, föður Þóris, föður Arnórs, föður Þuríðar, móður Þórdísar, móður Vigdísar, móður Sturlu í Hvammi.

Helgi hinn magri gaf Ingjaldi syni sínum land út frá Arnarhvoli til Þverár hinnar ytri; hann bjó að Þverá hinni efri og reisti þar hof mikið. Hann átti Salgerði Steinólfsdóttur, þeirra son Eyjólfur, faðir Víga-Glúms, og Steinólfur, faðir Þórarins illa og Arnórs hins góða Rauðæings. Víga-Glúmur var faðir Más, föður Þorkötlu, móður Þórðar, föður Sturlu.

Helgi gaf Hlíf dóttur sína Þorgeiri syni Þórðar bjálka og land út frá Þverá til Varðgjár. Þau bjuggu að Fiskilæk, börn þeirra Þórður og Helga.

Skagi Skoftason hét maður ágætur á Mæri; hann varð ósáttur við Eystein glumru og fór af því til Íslands. Hann nam að ráði Helga Eyjafjarðarströnd hina eystri út frá Varðgjá til Fnjóskadalsár og bjó í Sigluvík. Hans son var Þorbjörn, faðir Heðins hins milda, er Svalbarð lét gera sextán vetrum fyrir kristni; hann átti Ragnheiði, dóttur Eyjólfs Valgerðarsonar.