Landnámabók/72. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
72. kafli

Bárður son Heyjangurs-Bjarnar kom skipi sínu í Skjálfandafljótsós og nam Bárðardal allan upp frá Kálfborgará og Eyjardalsá og bjó að Lundarbrekku um hríð.

Þá markaði hann að veðrum, að landviðri voru betri en hafviðri, og ætlaði af því betri lönd fyrir sunnan heiði. Hann sendi sonu sína suður um gói; þá fundu þeir góibeytla og annan gróður. En annað vor eftir þá gerði Bárður kjálka hverju kykvendi, því er gengt var, og lét hvað draga sitt fóður og fjárhlut; hann fór Vonarskarð, þar er síðan heitir Bárðargata. Hann nam síðan Fljótshverfi og bjó að Gnúpum; þá var hann kallaður Gnúpa-Bárður.

Hann átti mörg börn. Hans son var Sigmundur, faðir Þorsteins, er átti Æsu, dóttur Hrólfs rauðskeggs. Þeirra dóttir var Þórunn, er átti Þorkell leifur, og var þeirra son Þorgeir goði að Ljósavatni.

Annar son Bárðar var Þorsteinn, faðir Þóris, er var á Fitjum með Hákoni konungi og skar rauf á oxahúð og hafði þá hlíf; því var hann leðurháls kallaður. Hann átti Fjörleifu Eyvindardóttur. Þeirra synir voru þeir Hávarður í Fellsmúla, Herjólfur að Mývatni, Ketill í Húsavík, Vémundur kögur, er átti Halldóru, dóttur Þorkels svarta, og Áskell og Háls; hann bjó á Helgastöðum.

Þorfiður máni hét maður, son Áskels torfa; hann nam land fyrir neðan Eyjardalsá til Landanmóts og sumt um Ljósavatnsskarð og bjó að Öxará.

Þórir son Gríms gráfeldarmúla af Rogalandi nam um Ljósavatnsskarð. Hans son var Þorkell leifur hinn hávi faðir Þorgeirs goða.

Þorgeir átti fyrst Guðríði dóttur Þorkels svarta, þeirra synir Þorkell hákur og Höskuldur, Tjörvi, Kolgrímur, Þorsteinn og Þorvarður, en dóttir Sigríður. Síðan átti hann Álfgerði dóttur Arngeirs hins austræna. Þorgeir átti og Þorkötlu, dóttur Dala-Kolls. Synir hans og þeirra kvenna voru þeir Þorgrímur, Þorgils, Óttar. Þessir voru laungetnir: Þorgrímur og Finni hinn draumspaki; hans móðir hét Lekný, útlend.

Heðinn og Höskuldur, synir Þorsteins þurs, fóru til Íslands og námu fyrir innan Tunguheiði. Heðinn bjó að Heðinshöfða og átti Guðrúnu. Þeirra dóttir var Arnríður, er Ketill Fjörleifarson átti. Guðrún var dóttir þeirra, er Hrólfur átti. Höskuldur nam lönd öll fyrir austan Laxá og bjó í Skörðum; við hann er kennt Höskuldsvatn, því að hann drukknaði þar. Í þeirra landnámi er Húsavík, er Garðar hafði vetursetu. Son Höskulds var Hróaldur, er átti Ægileifu, dóttur Hrólfs Helgasonar.