Landnámabók/79. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
79. kafli

Þorsteinn kleggi nam fyrstur Húsavík og bjó þar; hans son var Án, er Húsvíkingar eru frá komnir.

Loðmundur hinn gamli hét maður, en annar Bjólfur, fóstbróðir hans; þeir fóru til Íslands af Vörs af Þulunesi. Loðmundur var rammaukinn mjög og fjölkunnigur. Hann skaut fyrir borð öndvegissúlum sínum í hafi og kvaðst þar byggja skyldu, sem þær ræki á land. En þeir fóstbræður tóku Austfjörðu, og nam (Loðmundur) Loðmundarfjörð og bjó þar þenna vetur.

Þá frá hann til öndvegissúlna sinna fyrir sunnan land. Eftir það bar hann á skip öll föng sín, en er segl var dregið, lagðist hann niður og bað öngvan mann vera svo djarfan, að hann nefndi. En er hann hafði skamma hríð legið, varð gnýr mikill; þá sá menn, að skriða mikil hljóp á bæ þann, er Loðmundur hafði búið á.

Eftir það settist hann upp og tók til orða: „Það er álag mitt, að það skip skal aldri heilt af hafi koma, er hér siglir út.“

Hann hélt síðan suður fyrir Horn og vestur með landi allt fyrir Hjörleifshöfða og lendi nokkuru vestar; hann nam þar land, sem súlurnar höfðu komið, og á milli Hafursár og Fúlalækjar; það heitir nú Jökulsá á Sólheimasandi. Hann bjó í Loðmundarhvammi og kallaði þar Sólheima.

Þá er Loðmundur var gamall, bjó Þrasi í Skógum; hann var og fjölkunnigur.

Það var eitt sinn, að Þrasi sá um morgun vatnahlaup mikið; hann veitti vatnið með fjölkynngi austur fyrir Sólheima, en þræll Loðmundar sá, og kvað (falla) sjó norðan um landið að þeim. Loðmundur var þá blindur. Hann bað þrælinn færa sér í dælikeri það, er hann kallaði sjó.

Og er hann kom aftur, sagði Loðmundur: „Ekki þyki mér þetta sjór.“ Síðan bað hann þrælinn fylgja sér til vatnsins, „og stikk stafsbroddi mínum í vatnið.“

Hringur var í stafnum, og hélt Loðmundur tveim höndum um stafinn, en beit í hringinn. Þá tóku vötnin að falla vestur aftur fyrir Skóga.

Síðan veitti hvor þeirra vötnin frá sér, þar til er þeir fundust við gljúfur nokkur. Þá sættust þeir á það, að áin skyldi þar falla, sem skemmst væri til sjóvar. Sú er nú kölluð Jökulsá og skilur landsfjórðunga.