Landnámabók/80. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
80. kafli

Bjólfur fóstbróðir Loðmundar nam Seyðisfjörð allan og bjó þar alla ævi; hann gaf Helgu dóttur sína Áni hinum ramma, og fylgdi henni heiman öll in nyrðri strönd Seyðisfjarðar til Vestdalsár. Ísólfur hét sonur Bjólfs, er þar bjó síðan og Seyðfirðingar eru frá komnir.

Eyvindur hét maður, er út kom með Brynjólfi og færði síðan byggð sína í Mjóvafjörð og bjó þar. Hans son var Hrafn, er seldi Mjóvafjarðarland Þorkatli klöku, er (þar) bjó síðan; frá honum er Klökuætt komin.

Egill hinn rauði hét maður, er nam Norðurfjörð og bjó á Nesi út; hans son var Óláfur, er Nesmenn eru frá komnir.

Freysteinn hinn fagri hét maður; hann nam Sandvík og bjó á Barðsnesi, Viðfjörð og Hellisfjörð. Frá honum eru Sandvíkingar og Viðfirðingar og Hellisfirðingar komnir.

Þórir hinn hávi og Krumur, þeir fóru af Vörs til Íslands, og þá er þeir tóku land, nam Þórir Krossavík á milli Gerpis og Reyðarfjarðar; þaðan eru Krossvíkingar komnir.

En Krumur nam land á Hafranesi og til Þernuness og allt hið ytra, bæði Skrúðey og aðrar úteyjar og þrjú lönd öðrum megin gegnt Þernunesi; þaðan eru Krymlingar komnir.

Ævar var fyrst í Reyðarfirði, áður hann fór upp um fjall, en Brynjólfur í Eskifirði, áður hann fór upp að byggja Fljótsdal, sem áður var ritað.

Vémundur hét maður, er nam Fáskrúðsfjörð allan og bjó þar alla ævi; hans son var Ölmóður, er Ölmæðlingar eru frá komnir.

Þórhaddur hinn gamli var hofgoði í Þrándheimi á Mæri(na). Hann fýstist til Íslands og tók áður ofan hofið og hafði með sér hofsmoldina og súlurnar; en hann kom í Stöðvarfjörð og lagði Mærina-helgi á allan fjörðinn og lét öngu tortíma þar nema kvikfé heimilu. Hann bjó þar alla ævi, og eru frá honum Stöðfirðingar komnir.